Það sem af er þessu ári hefur nú þegar eða stendur til að vísa 34 einstaklingum frá Íslandi til Grikk­lands þar sem þau hafa nú þegar hlotið vernd. Af þeim er búið að vísa níu úr landi og 25 hafa fengið símtal eða boð frá stoðdeild ríkislögreglustjóra um að fara sjálfviljug í þessum mánuði.

Út­lendinga­stofnun á­kvað í mars á síðasta ári að vísa ein­stak­lingum ekki til Grikk­lands vegna ó­vissunnar sem þar var uppi vegna COVID-19 far­aldursins en sam­kvæmt upp­lýsingum frá Út­lendinga­stofnun var það mat endur­skoðað með haustinu og síðan þá hefur ein­stak­lingum sem nú þegar eru með vernd á Grikk­landi verið synjað um efnis­lega með­ferð hér á landi í kjöl­far mats á ein­stak­lings­bundnum að­stæðum um­sækj­enda. Sam­kvæmt upp­lýsingum frá Út­lendinga­stofnun hafa þær synjanir verið stað­festar af kæru­nefnd út­lendinga­mála.

„Um­sækj­endur um vernd sem fá þá niður­stöðu að þurfa að fara til baka til Grikk­lands hafa í öllum til­vikum þegar fengið viður­kenningu á stöðu sinni sem flótta­menn frá grískum stjórn­völdum og njóta þeirra réttinda sem því fylgir þar í landi. Ein­staklingar sem koma til Ís­lands frá Grikk­landi án þess að hafa verið veitt al­þjóð­leg vernd fá efnis­lega með­ferð hér á landi,“ segir í svari stofnunarinnar við fyrir­spurn Frétta­blaðsins um málið. Spurt var hve­nær stofnunin hafi byrjað að vísa fólki aftur til Grikk­lands og á hvaða for­sendum.

Aðstæður ekki betri fyrir þau sem hafa hlotið vernd

Rauði krossinn á Ís­landi hefur í­trekað áður bent á að að­stæður þeirra sem hlotið hafa al­þjóð­lega vernd á Grikk­landi séu síst skárri en þeirra sem enn hafa um­sókn sína til með­ferðar þar í landi og bent á að það sjónar­mið sé stutt af al­þjóð­legum skýrslum og frá­sögnum aðila sem starfað hafa fyrir al­þjóð­leg hjálpar­sam­tök í Grikk­landi.

„Allir sem við höfum talað við og hafa verið í þessum að­stæðum, skjól­stæðingar okkar og fólk sem hefur upp­lifað þetta á eigin skinni, sögum þeirra ber öllum saman af mjög slæmum að­stæðum,“ segir Guð­ríður Lára Þrastar­dóttir, lög­fræðingur og tals­maður um­sækj­enda um al­þjóð­lega vernd hjá Rauða krossinum, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Hún segir að fólkið sem á að vísa núna úr landi sé lík­lega fólk sem sótti um vernd síðasta vor eða sumar og að þau hjá Rauða krossinum þekki þessi mál og viti af þeim og hafi sinnt réttinda­gæslu fyrir þetta fólk.

Guð­ríður Lára segir að það gildi enn það sem þau hafi sagt áður í frétta­til­kynningum um slík mál. Það hafi ekkert breyst í Grikk­landi og að að­stæður séu í raun verri þar nú, hvað varðar heims­far­aldurinn, en þær voru í fyrra þegar hlé var gert á brott­vísunum.

Guðríður Lára Þrastardóttir er lögfræðingur og talsmaður umsækjenda um alþjóðlega vernd hjá Rauða krossinum.
Fréttablaðið/Ernir

4.293 tilfelli af COVID-19 í gær

Þess má geta að í vor þegar á­kvörðunin var tekin um að hætta að vísa fólki aftur vegna COVID-19 til Grikk­lands voru, sam­kvæmt Al­þjóða­heil­brigðis­mála­stofnuninni um 50 til 150 til­felli á dag greind í Grikk­landi en í gær, sem dæmi, voru greind 4.293 ný til­felli og 79 létu lífið eftir að hafa greinst með COVID-19. Það er því ekki hægt að segja, sam­kvæmt þessum tölum, að að­stæður hafi batnað.

Það sem af er ári hafa alls níu ein­staklingar yfir­gefið landið, sam­kvæmt upp­lýsingum frá Út­lendinga­stofnun, í kjöl­far á­kvörðunar um synjun á efnis­legri með­ferð um­sóknar um vernd á grund­velli þess að þeir njóti þegar verndar í Grikk­landi.

„Í öllum til­vikum var um að ræða ein­stak­linga sem fóru til baka til Grikk­lands án fylgdar stoð­deildar ríkis­lög­reglu­stjóra,“ segir í svari Út­lendinga­stofnunarinnar til Frétta­blaðsins.

Spurð hversu mörgum eigi eftir að vísa úr landi í þessum mánuði segir að alls séu 25 ein­staklingar sem beri að yfir­gefa landið og snúa aftur til Grikk­lands þar sem þeir hafa þegar hlotið vernd.

Út­lendinga­stofnun sendir beiðnir um fram­kvæmd á­kvarðana til stoð­deildar ríkis­lög­reglu­stjóra ef um­sækj­endur fara ekki sjálf­viljugir úr landi innan frests.

Sam­kvæmt Út­lendinga­stofnun hafa engar barna­fjöl­skyldur fengið endan­lega synjun hjá kæru­nefnd Út­lendinga­mála og hefur því engum barna­fjöl­skyldum verið vísað til baka til Grikk­lands.