Lyfjafyrirtækið Pfizer sækir um leyfi til að gefa þriðju sprautuna en niðurstöður frá Ísrael gefa til kynna að virkni bóluefna gegn kórónuveirunni minnki og líkur á smitum aukist sex mánuðum eftir bólusetningu. Þetta kemur fram í frétt hjá The Guardian.

Þá er einnig horft til þess að Delta afbrigði vírusins sé að dreifast hratt. Fyrirtækið er að vinna að þróun nýs bóluefnis sem mun sérstaklega berjast gegn því afbrigði en þó segja talsmenn það ekki nauðsynlegt að skipta bóluefninu út, enda sé það upprunalega mjög áhrifaríkt.

Virkni bóluefnanna gegn smitum féll niður í 64 prósent í Ísrael núna í júní en er áfram 95 prósent gegn alvarlegum veikindum.

Þá segir talsmaður Pfizer að niðurstöður eigin rannsókna gefi til kynna að þriðja sprautan myndi búa til fimm- til tífalt fleiri mótefni en önnur sprautan og ætti því að veita mikla vörn.

Einhver ríki hafa þegar rætt við fyrirtækið um möguleikann á þriðju sprautunni og talið er að það muni vera sérstaklega mikilvægt fyrir eldra fólk. Þá telur framkvæmdarstjóri Pfizer, Albert Bourla, að fólk muni þurfa að fá árlega sprautu, líkt og gegn inflúensu.