„Rök okkar í sveitarstjórn eru að styrkja stöðu samfélagsins með auknu raforkuöryggi,“ segir Jóhannes Gissurarson oddviti í Skaftárhreppi.

Skaftárhreppur hefur afgreitt og sent frá sér greinargerð eftir að Landvernd og systursamtök kærðu fyrirhugaða Hnútuvirkjun til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Gögnin hafa ekki verið gerð opinber. Af svörum hreppsnefndarmanna að dæma heldur sveitarfélagið sínu striki og svarar kærunni fullum hálsi.

Samtökin sem kærðu eru Landvernd, Eldvötn – samtök um náttúruvernd í Skaftárhreppi, Náttúruverndarsamtök Suðurlands, Náttúruverndarsamtök Íslands og Ungir umhverfissinnar.

Náttúruundur í sögufrægu Skaftáreldahrauni eru að mati Landverndar og fjölda heimamanna í hættu, gangi áform um virkjunina í Hverfisfljóti eftir. Framkvæmdir, vegagerð og bygging stöðvarhúss nálægt náttúruperlunni Lambhagafossum yrði á óröskuðu svæði og telja andstæðingar áformin ógn fyrir ferðaþjónustu.

Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar.

„Við vísum því ekki á bug á þessu stigi að um brot á náttúruverndarlögum gæti verið að ræða, við bíðum úrskurðar,“ segir Jóhannes oddviti. „En við þurfum að horfa á heildarhagsmunina, umhverfislega, efnahagslega og samfélagslega hagsmuni.“

Framkvæmdir við virkjunina gætu hafist um leið og niðurstaða liggur fyrir, að því gefnu að ekki verði tekið tillit til kærunnar.

„Ég ætla ekkert að tjá mig um málið, ákvarðanir um þetta voru teknar fyrir mína tíð,“ segir Einar Kristján Jónsson, nýráðinn sveitarstjóri Skaftárhrepps, um deilur í héraðinu vegna áformanna, ekki síst meðal kjörinna sveitarstjórnarfulltrúa.

Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, segir að það standi til að tengja Hnútuvirkjun tengivirki á Prestsbakka þar sem fyrir sé tenging. Varla sé því um aukið framboð af raforku í Skaftárhreppi að ræða.

„Þetta er einstakt svæði, þar sem við getum fylgst með landi í mótun rétt við þjóðveginn. Það er um klárt brot á náttúruverndarlögum að ræða,“ segir Auður.