Almannavarnir og lögreglustjórinn á Suðurnesjum hafa ákveðið að virkja sms-skilaboð sem verða send til fólks sem fer inn á fyrirfram skilgreint svæði vegna jarðskjálftanna sem hafnir eru á ný við Fagradalsfjall á Reykjanesi.
Er þetta gert því eldgos gæti hafist með litlum fyrirvara. Komi til eldgoss verður textaskilaboðum breytt í beina aðvörun til þeirra sem eru á umræddu svæði.
Ekki er hægt að útiloka að sms-skilaboðin berist til fólks aðeins utan við skilgreint svæði og er því almenningur beðinn um að hafa það í huga. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum varar fólk við því að fara í göngu um gosstöðvarnar á meðan þessi óvissa ríkir.
„Í raun og veru búumst við við að þetta gæti gerst hvenær sem er,“ segir Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúruvársérfræðingur á vakt hjá Veðurstofu Íslands, um hugsanlegt eldgos á Reykjanesskaga.
Tveir jarðskjálftar, 3,6 og 3,3 að stærð, riðu yfir með 18 sekúndna millibili um fjóra kílómetra norður af Krýsuvík klukkan 15.25. Salóme segir þá óbeint tengjast kvikuhreyfingum sunnar á Reykjanesskaga þar sem eldstöðvarnar eru. Þar hefur staðið yfir skjálftahrina síðustu daga.
Þá segir Salóme óróapúlsa hafa mælst en það þýði ekki endilega að eldgos verði. Hún býst við áframhaldandi skjálftum. „Á meðan kvika treður sér þarna á milli býst ég við að þetta verði eitthvað viðvarandi,“ segir hún.