Rúmlega áttatíu manns slösuðust þegar að japönsk ferja sem flytur farþega frá Niigata borg til eyjunnar Sado á Japansshafi sigldi á það sem virðist hafa verið hvalur, að því er BBC greinir frá.

Áreksturinn var það harður að þrettán farþeganna eru með meiriháttar meiðsl en fimmtán sentímetra sprunga myndaðist á skuta skipsins og telur sjávarfræðingur sem BBC vísar í það mjög líklegt að um hval hafi verið að ræða. 

Einn farþeganna lýsir því þannig að hann hafi allt í einu kastast með háls sinn lóðrétt á enda sætisins fyrir framan sig og allt í kringum hann hafi margir meiðst við skyndilegan áreksturinn. 121 manns voru um borð í ferjunni en hún komst á leiðarenda, þó klukkutíma á eftir áætlun. Hvalir eru algengir á þessum slóðum á þessum tíma árs.