Að óbreyttu munu gjaldþrot á árinu verða innan við 350 talsins, en frá bankahruninu árið 2008 hafa þau aldrei verið færri en 588. Covid-faraldurinn hefur ekki enn skapað holskeflu gjaldþrota.
Gjaldþrot fyrirtækja eru í algjöru lágmarki og það stefnir í metár. Frá janúar til september voru aðeins 259 gjaldþrot og með þessu áframhaldi verða þau innan við 350 á árinu. Frá árinu 2008 hafa þau aldrei verið færri en 588 og yfirleitt á bilinu 700 til 1.000.
„Þegar viðsnúningurinn í hagkerfinu er svona hraður er eðlilegt að gjaldþrotum fækki,“ segir Konráð S. Guðjónsson, efnahagsráðgjafi Samtaka atvinnulífsins.
Gjaldþrot eru þó ekki rauntímamælingar á stöðu efnahagsins. Þessi litli fjöldi gjaldþrota endurspeglar að einhverju leyti hvernig fjármögnunarumhverfi fyrirtækja var á síðasta ári og snemma á þessu ári. Verðbólga og vextir hafa rokið upp á þessu ári.
„Í fyrra var tiltölulega lítil verðbólga, krónan var að styrkjast, vextir voru lágir og eignaverð að hækka,“ segir Konráð. „Allt þetta styður ekki beint við grunnrekstur fyrirtækja heldur við fjármögnunina og skapaði minni kostnað en vanalega. Þetta er hins vegar allt saman að snúast.“
Fyrir fram mætti ætla að heimsfaraldrinum fylgdi holskefla af gjaldþrotum. Þetta hefur hins vegar ekki birst enn. Gjaldþrot voru fleiri árið 2018 heldur en 2020 og 2021. Þá var starfsmannafjöldi gjaldþrota fyrirtækja langtum meiri 2019 en ár faraldursins, það er vegna falls WOW.
„Reynslan sýnir að áhrif af áföllum geta verið töluvert lengi að koma fram,“ segir Konráð. Aldrei hafa fleiri gjaldþrot verið en 2011, 1.579 alls, en ætla má að stór hluti þeirra sé vegna bankahrunsins 2008. „Ég vona að þau fyrirtæki sem lentu illa í faraldrinum muni jafna sig, en það er ekki hægt að útiloka að einhver þeirra muni ekki bera þess bætur að þurfa að hafa lokað mánuðum saman.“
Sérlega fá gjaldþrot hafa verið í sumar og haust. Aðeins eitt var skráð í ágúst. Þetta er öfug þróun miðað við Evrópu því þar hefur gjaldþrotum fyrirtækja fjölgað, einkum á seinni helmingi þessa árs. Mest í Ungverjalandi, Spáni og Frakklandi.
Konráð á von á verri tíð hvað fjölda gjaldþrota snertir. Fyrir utan verri efnahagshorfur megi alltaf búast við því að tölur dali þegar met sé sett. „Það verður að teljast líklegt að gjaldþrotum muni fjölga aftur þegar þau eru í lágmarki.“