Að ó­breyttu munu gjald­þrot á árinu verða innan við 350 talsins, en frá banka­hruninu árið 2008 hafa þau aldrei verið færri en 588. Co­vid-far­aldurinn hefur ekki enn skapað hol­skeflu gjald­þrota.

Gjald­þrot fyrir­tækja eru í al­gjöru lág­marki og það stefnir í met­ár. Frá janúar til septem­ber voru að­eins 259 gjald­þrot og með þessu á­fram­haldi verða þau innan við 350 á árinu. Frá árinu 2008 hafa þau aldrei verið færri en 588 og yfir­leitt á bilinu 700 til 1.000.

„Þegar við­snúningurinn í hag­kerfinu er svona hraður er eðli­legt að gjald­þrotum fækki,“ segir Kon­ráð S. Guð­jóns­son, efna­hags­ráð­gjafi Sam­taka at­vinnu­lífsins.

Gjald­þrot eru þó ekki raun­tíma­mælingar á stöðu efna­hagsins. Þessi litli fjöldi gjald­þrota endur­speglar að ein­hverju leyti hvernig fjár­mögnunar­um­hverfi fyrir­tækja var á síðasta ári og snemma á þessu ári. Verð­bólga og vextir hafa rokið upp á þessu ári.

„Í fyrra var til­tölu­lega lítil verð­bólga, krónan var að styrkjast, vextir voru lágir og eigna­verð að hækka,“ segir Kon­ráð. „Allt þetta styður ekki beint við grunn­rekstur fyrir­tækja heldur við fjár­mögnunina og skapaði minni kostnað en vana­lega. Þetta er hins vegar allt saman að snúast.“

Fyrir fram mætti ætla að heims­far­aldrinum fylgdi hol­skefla af gjald­þrotum. Þetta hefur hins vegar ekki birst enn. Gjald­þrot voru fleiri árið 2018 heldur en 2020 og 2021. Þá var starfs­manna­fjöldi gjald­þrota fyrir­tækja langtum meiri 2019 en ár far­aldursins, það er vegna falls WOW.

„Reynslan sýnir að á­hrif af á­föllum geta verið tölu­vert lengi að koma fram,“ segir Kon­ráð. Aldrei hafa fleiri gjald­þrot verið en 2011, 1.579 alls, en ætla má að stór hluti þeirra sé vegna banka­hrunsins 2008. „Ég vona að þau fyrir­tæki sem lentu illa í far­aldrinum muni jafna sig, en það er ekki hægt að úti­loka að ein­hver þeirra muni ekki bera þess bætur að þurfa að hafa lokað mánuðum saman.“

Sér­lega fá gjald­þrot hafa verið í sumar og haust. Að­eins eitt var skráð í ágúst. Þetta er öfug þróun miðað við Evrópu því þar hefur gjald­þrotum fyrir­tækja fjölgað, einkum á seinni helmingi þessa árs. Mest í Ung­verja­landi, Spáni og Frakk­landi.

Kon­ráð á von á verri tíð hvað fjölda gjald­þrota snertir. Fyrir utan verri efna­hags­horfur megi alltaf búast við því að tölur dali þegar met sé sett. „Það verður að teljast lík­legt að gjald­þrotum muni fjölga aftur þegar þau eru í lág­marki.“