Virði rafmyntarinnar bitcoin hefur helmingast á hálfu ári. Stendur það núna í 4,3 milljónum króna en var tæplega 8,8 milljónir í byrjun nóvember. Virðið lækkaði hratt fram að áramótum og hefur farið sígandi síðan. Óvissa í efnahagsmálum heimsins, vegna olíuskorts, verðbólgu og stríðsins í Úkraínu, er talin meðal ástæðna þess að bitcoin hefur hrapað í verði samkvæmt frétt viðskiptadeildar BBC. Fjárfestar líti á bitcoin og aðrar rafmyntir sem áhættufjárfestingu, líkt og fjárfestingu í tæknigeiranum. Samkvæmt CNBC óttast rafmyntafyrirtæki að virðið falli enn meira á næstunni, jafnvel niður í 25 þúsund dollara, eða 3,3 milljónir króna. Bitcoin er langstærsta rafmynt heims og telur um þriðjung af heildinni. Aðrar rafmyntir hafa einnig hrapað. Til dæmis etherum, sem er núna 317 þúsund króna virði en var á 626 þúsund í byrjun nóvember. Tvö lönd hafa heimilað notkun bitcoin sem innanlandsgjaldeyris á liðnu ári. Mið-Afríkulýðveldið og El Salvador. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur beðið El Salvador að snúa við ákvörðun sinni vegna þess að notkun bitcoin geti ógnað fjármálastöðugleika landsins og neytendavernd. Meðan bitcoin sé löglegur gjaldeyrir í landinu fái það ekki lán frá stofnuninni.