„Vígavegrið eða ostaskerar eins og við köllum það er stórhættulegt fyrir okkur mótorhjólafólk, ég held ég geti talað fyrir okkur öll að við viljum þetta burt áður en það verður banaslys af völdum vegriðanna og að þetta verði bannað hér á landi. Ég sem hjólari reyni að vera sem lengst frá þessu því ég óttast þetta,“ segir Þorgerður Guðmundsdóttir, formaður Sniglanna.

Í Noregi hefur uppsetning víravegriða verið bönnuð síðan 2006 og nú fagna norsku mótorhjólasamtökin NMCU þeim áfanga að verið sé að taka niður hættuleg víravegrið.Er verið að skipta víravegriði smám saman út fyrir stálvegrið með undirakstursvörnum. Víravegrið bjóða ekki upp á hagkvæmar lausnir í undirakstursvörnum og eru því með óvarða bita sem eru mótorhjólafólki hættulegir. Norsku vegagerðin segir hagkvæmni einnig búa að baki þessari ákvörðun en víravegrið þurfa meira viðhald en önnur vegrið. Á Íslandi eru víravegrið víðast hvar utan þéttbýlis, bæði í vegarköntum og á milli akreina.