Viðræðum milli verkalýðshreyfingarinnar og Samtaka atvinnulífsins var slitið eftir snarpan fund hjá ríkissáttasemjara í dag. Engin breyting varð á tillögu SA frá síðasta fundi.

Forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar gengu í tvígang út af fundinum í dag og funduðu saman í öðru fundarherbergi áður en ljóst var að samningsviðræðum væri slitið. Fyrst gengur verkalýðsforkólfarnir út af fundinum þegar ljóst var að SA hafði engar nýjar tillögur í samingaviðræðunum. Eftir snarpt samtal fóru þeir aftur inn í fundarherbergið og tilkynntu að þeim þætti frekari fundarhöld ekki líkleg til árangurs og slitu þar með viðræðum. Gengu þeir í kjölfar út í seinna skiptið. 

Forsvarsmenn þriggja verkalýðshreyfinga, formenn VR, Eflingar og Verkalýðsfélags Akraness, sem eiga aðild að samningaviðræðunum segja öll í samtali við Fréttablaðið að verkalýðshreyfingin sé óhrædd við verkföll. 

Vilhjálmur Birgisson segir í samtali við Fréttablaðið að nú þegar sé skipulagning skæruverkfalla langt á veg kominn og búast megi við að verkföll hefjist innan tveggja til þriggja vikna. 

Þá sagði Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, að hann væri ekki í nokkrum vafa um að félagsmenn VR myndu samþykkja staðbundnar verkfallsaðgerðir að kynningu lokinni. Bætti hann við að aðgerðirnar sem yrði ráðist myndu koma á óvart. Hann vildi ekkert gefa upp um eðli aðgerðanna en það myndi liggja fyrir á næstu dögum.

Til þess að verkföll og aðrar aðgerðir séu heimilar samkvæmt lögum um vinnudeilur þarf meirihluti þeirra félagsmanna sem fyrirhugað er að fari i verkfall að samþykkja aðgerðirnar í atkvæðagreiðslu. Hljóti aðgerðirnar samþykki þeirra félagsmanna þarf að tilkynna ríkissáttasemjara og samningsaðilum það með sjö daga fyrirvara áður en aðgerðirnar mega hefjast.

Deiluaðilar þurfa hins vegar að hittast aftur á vettvangi ríkissáttasemjara á næstu tveim vikum og er málið því enn á borði sáttasemjara þar til samningar nást. Hins vegar eru enginn viðurlög við því að sinna ekki fundarboði. Elísabet S. Ólafsdóttir, skrifstofustjóri embætti ríkissáttasemjara, segir í samtali við Fréttablaðið að nær alltaf sé mætt á fundi sáttasemjara.

Fréttin hefur verið uppfærð.