„Við fögnum þeirri starfsemi sem hin franska netverslun hefur ýtt úr vör og vonum að hún verði upphafið að endalokunum á löngu úreltu kerfi,“ segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ).

Samtökin bregðast með því við starfsemi franska fyr­ir­tækisins San­tew­ines SAS sem selur áfengi í netverslun til Íslendinga og heldur úti áfengislager hér á landi sem afgreitt er úr með heimsendingarþjónustu. Slíkt hefur ekki þekkst hér á landi miðað við þau áfengislög sem gilt hafa áratugum saman. San­tew­ines SAS er í eigu Arnars Sigurðssonar vínkaupmanns.

Samtökin hafa alla tíð gagnrýnt það fyrirkomulag við smásölu á áfengi sem gilt hefur hér á landi um áratugaskeið og talið slíka starfsemi betur komna í höndum einkaaðila, segir Andrés um afstöðu samtakanna.

EES reglur

Andrés bendir á reglur EES í þessum efnum: “Erlendar netverslanir hafa um langt árabil selt áfengi til íslenskra neytenda og byggist slíkt einfaldlega á einni grunnstoð EES samningsins, það er, um frjálst flæði vöru. Íslenskir neytendur hafa nýtt sér þennan möguleika í auknum mæli á undanförnum árum. Eini munurinn í þessu máli er að hér er hin franska netverslun með vörulager á Íslandi og verður að telja að bann við slíku færi gegn tilgreindu ákvæði EES samningsins. Að þessu sögðu verður ekki annað séð en hér sé um fyllilega löglega starfemi að ræða.”

Samtökin benda á fjórðu grein áfengislaga þar sem segir:

Innflutningur, heildsala, smásala og framleiðsla áfengis sem fram fer í atvinnuskyni án leyfis samkvæmt lögum þessum varðar refsingu.

Þar er svo vísað í 27. grein laganna þar sem refsingin er sögð varða sektum eða fangelsi allt að sex árum.

„Fyrst lögreglan hefur ekkert aðhafst þá viku sem liðin er síðan að þessi starfsemi hófst, bendir eindregið til þess að hún telji starfsemina löglega", segir Andrés.

San­tew­ines SAS er í eigu Arnars Sigurðssonar vínkaupmanns
Mynd/Facebook

Vonbrigði með frumvarp dómsmálaráðherra

„Það að innlend netverslun með áfengi sé bönnuð, er í öllu tilliti óásættanleg staða og mikil vonbrigði að frumvarp dómsmálaráðherra um afnám þess banns hafi ekki náð fram að ganga. Þessi starfsemi er einfaldlega rökrétt viðbrögð við þeirri samkeppnismismunun sem felst í því banni,“ má enn fremur sjá í yfirlýsingu samtakanna sem send var Fréttablaðinu.

Frumvarp Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra um leyfi fyrir innlendri áfengissölu án milligöngu ÁTVR er enn til umfjöllunar í þingnefnd Alþingis og óvíst hvort það nær fram að ganga á þessu þingi.

Frumvarp ráðherra frá því í fyrrahaust fékk ekki samþykki í ríkisstjórn og nú liggur það breytt í þingnefnd þar sem ekki lengur er lagt upp með að heimila vefverslun með áfengi í smásölu heldur aðeins að smærri brugghús geti selt bjór á framleiðslustað. Slíkt hafa brugghúsinu reyndar nú þegar gert undanfarna mánuði án áfskipta yfirvalda.