Í helmingi manndrápsmála frá 1999 til 2020 var gerandi kunningi eða vinur. Í 22 prósent tilfella var gerandi maki eða fyrrverandi maki. Þetta kemur fram í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Bryndísi Haraldsdóttur um ofbeldi í nánum samböndum.
Þar kemur einnig fram að ókunnugir hafi aðeins verið gerendur í tólf prósent mála og að í fimmtán prósent tilfella hafi verið um að ræða annars konar fjölskyldutengsl.
Gögnin sem eru birt í svari dómsmálaráðherra koma frá ríkislögreglustjóra, úr málaskrá embættisins. Vakin er athygli á því að undir flokkinn kunningjar/vinir geta fallið þau tilvik þegar verknaðurinn beinist gegn núverandi maka þess sem gerandi átti áður í nánu sambandi við.
Bryndís spurði einnig í fyrirspurn sinni hvort að framkvæmd hafi verið athugun á fjölda tilkynninga til lögreglu vegna ofbeldis í nánu sambandi í aðdraganda manndrápa sem tengjast slíku ofbeldi.
Í svari ráðherra kemur fram að við rannsókn hjá lögreglu sé forsaga könnuð ef tilefni er til.
„Þannig getur fjöldi fyrri tilkynninga komið til skoðunar í hverju máli fyrir sig. Það hefur þó ekki verið framkvæmd sérstök athugun á fjölda slíkra tilkynninga. Samkvæmt upplýsingum frá ríkislögreglustjóra er verið að skoða möguleikann á því að kanna sérstaklega og leggja heildstætt mat á þau mál sem hafa komið upp og munu koma upp í framtíðinni þar sem manndráp hefur átt sér stað og tengjast ofbeldi í nánum samböndum. Við þá vinnu yrði horft m.a. til sambærilegrar vinnu breskra stjórnvalda og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (e. World Health Organization),“ segir að lokum.