Mánudaginn 25. maí eru 90 ár frá opnun hótelsins en veitingastaðurinn og skemmtistaðurinn höfðu verið opnuð aðeins fyrr á árinu 1930. Af því tilefni mun Stefán Pálsson leiða gesti um húsið milli klukkan 16.30 og 19 og fara yfir sögu hótelsins sem nú er eitt Keahótela.

„Þetta var eiginlega magnað afrek því húsið var opnað um 18 mánuðum eftir að framkvæmdir hófust. Í raun mátti ekki tæpara standa þar sem menn réru lífróður við að ná að opna fyrir sumarið 1930 þar sem Alþingishátíðin var fram undan,“ segir Stefán sem hefur kynnt sér sögu Borgarinnar í þaula.

„Íslendingar höfðu ákveðið að halda gríðarlega mikla hátíð til að fagna 1.000 ára afmæli Alþingis þetta sumarið og er hún kveikjan að byggingu hótelsins. Þetta er langstærsta hátíð sem Íslendingar hafa haldið og var ókjörum öllum af erlendum þingmönnum, gestum og kóngafólki boðið.

Með svona straum til bæjarins var ljóst að eitthvað þyrfti að gera enda höfðum við aldrei fyrr fengið marga tigna gesti í einu. Litlu gistiheimilin sem fyrir voru náðu engu máli og menn höfðu af þessu þungar áhyggjur.

Eins og sjá má var mikið lagt upp úr því að þjónar staðarins væru virðulegir.

Hinn magnaði Jóhannes á Borg

Þá stígur inn hin magnaða týpa Jóhannes Jósefsson glímukappi, sem síðar kenndi sig alltaf við Borgina. Hann var ofboðslega mikill Íslendingasögukall svo Borgar nafnið vísar ekkert í Reykjavíkurborg, heldur Borg á Mýrum þar sem Skallagrímur og Egill höfðust við fyrr á öldum.

Jóhannes hafði í 20 ár lifað mjög ævintýralegu lífi þar sem hann starfaði sem glímukappi og aflraunamaður í fjölleikahúsum, sérstaklega í Bandaríkjunum. Þar hafði hann kynnst stórstjörnum og var til að mynda persónulegur vinur Houdini.

Hann kemur hingað til lands til að setjast í helgan stein og setur allt sitt sparifé í að byggja Hótel Borg en fær á móti ábyrgð frá bæði ríki og borg, gegn því að hótelið verði klárað fyrir Alþingishátíðina og það tókst. Tímaáætlunin stóðst vel en kostnaðurinn varð tvöfalt það sem lagt var upp með í byrjun.“

Fjörutíu herbergja lúxushótelið var hannað af Guðjóni Samúelssyni og voru húsakynnin glæsilegri en fólk átti að venjast hér á landi. „Þegar fólk sá veislusalina sagði það strax að upplifunin væri eins og að koma til útlanda, eins og að sigla eins og sagt var. Húsið sjálft var auðvitað glæsilegt en jafnframt var mikið lagt í alla innanstokksmuni, skreytingar, borðbúnað og listmuni.“

Þernurnar á Borginni árið 1935.

Hálftómt lúxushótel

Að hátíðinni lokinni kom það í ljós að ferðamannatímabilið var ekki sérstaklega langt hér á landi. „Reksturinn var erfiður enda þetta fína hótel hálftómt stóran hluta ársins. Ríkið hljóp þá undir bagga og eiginlega svipti aðra veitingastaði vínveitingaleyfi svo Borgin sat ein að því. Um allnokkurt skeið var Borgin því eina löglega vínveitingahúsið á landinu og lengi vel lykilstofnun í öllu skemmtanalífi og tónlistarsögu hér á landi. Allar fínni samkomur voru haldnar á Borginni og það er ekkert fyrr en vel eftir stríð að það fara að verða einhverjir aðrir valkostir.

Það má kalla fjórða áratuginn gullöld Borgarinnar enda þótti það fádæma munaður að fara þangað. Meirihluti herbergja var með sitt eigið bað eða sturtu en það var ekki orðinn standard útbúnaður nema á heimilum betri borgara. Þokkalega vel stæðir Reykvíkingar hituðu bara vatn í bala á eldhúsgólfinu ef þeir ætluðu í bað, sem þeir gerðu reyndar litið af,“ segir Stefán og hlær.

„Það var ekkert við stærðina á íslensku samfélagi né stöðu túrismans sem réttlætti það að ráðast í byggingu lúxushótels á þessum tíma og það korter í kreppu. Þetta hefði aldrei verið gert nema vegna þessarar tilviljunar, að þessi sérkennilegi eigandi er reiðubúinn að setja umtalsvert fé í þetta og ríkið vill að hótelið sé byggt.“

Einn fyrstu matseðla Borgarinnar sýnir að réttirnir voru mun látlausari á ástkæra ylhýra en á frönsku.

Stefán bendir á að flestar aðrar atvinnugreinar hefðu verið arðbærari fyrir Jóhannes. „En hann var auðvitað búinn að lifa hálfgerðu glamúrlífi, var vanur því að búa á hótelum og þekkti nýjasta bandaríska lúxusinn.“

Eiginkona Jóhannesar, Karólína Amalía Guðlaugsdóttir, átti stóran þátt í að byggja hótelið upp með honum. „Lengi vel bjuggu þau hjónin í hótelbyggingunni þar sem þau voru með þjóna og matreiðslumenn á sínum snærum. Þegar þau svo skildu flutti hún í turninn og hann bjó á fyrstu hæðinni.“

Stefán segir opnun Hótel Borgar hafa breytt borgarbragnum töluvert og að það sé ekki að ástæðulausu að ákveðin rómantík sé yfir byggingunni í huga fólks.

„Byggingin kippti mönnum inn í nútímann og var eins konar gluggi inn í erlendan glamúr og í raun er dálítið magnað að menn hafi náð að upplifa slíkt hér á landi á þessum tíma.“

Stefán mun eins og fyrr segir leiða gesti um Hótel Borg á afmælisdaginn en einnig mun Sigríður Thorlacius syngja tóna sem ómað hafa á Borginni í gegnum tíðina og henni til halds og trausts verða tónlistarmennirnir Guðmundur Óskar og Ómar Guðjónsson.

Mynd tekin á bilinu 1950 til 1955. Húsband Borgarinnar, hljómsveit Carls Billich. Mynd/Ljósmyndasafn Reykjavíkur
Jóhannes og eiginkona hans Karólína bjuggu á hótelinu og þegar þau skildu flutti hún í turnherbergið en hann á fyrstu hæðina.