Skoðana­kannanir benda til þess að afar mjótt sé á munum milli vinstri- og hægri­blokkanna í Sví­þjóð fyrir kosningarnar á sunnu­dag. Stjórnar­myndun gæti hins vegar reynst snúin.

Kosið er um 349 þing­sæti í 29 kjör­dæmum. Þröskuldurinn er 4 prósent og fast­lega er búist við að allir átta flokkarnir sem nú eiga sæti á sænska þinginu komist yfir hann.

Staðan í sænskum stjórn­málum í dag er marg­slungnari en oft áður.

„Þetta hefur verið ó­venju­legt kjör­tíma­bil. Stjórn­mál í Sví­þjóð eru yfir­leitt frekar stöðug,“ segir Birgir Her­manns­son stjórn­mála­fræðingur.

Það tók Stefan Löfven fjóra mánuði að mynda ríkis­stjórn eftir kosningarnar árið 2018 með Um­hverfis­flokknum á meðan Vinstri­flokkurinn, Mið­flokkurinn og Frjáls­lyndir vörðu hana falli.

Árið 2021 missti Löfven stuðning Vinstri­flokksins vegna húsa­leigu­mála og lauk þeim málum með út­göngu hans úr stjórn­málum en Sósíal­demó­kratar sitja nú einir í stjórn með Magda­lenu Anders­son sem for­sætis­ráð­herra.

Birgir segir að stóra undir­liggjandi málið sé hvor blokkin stýri landinu næstu fjögur árin. Anders­son styðjist við Vinstri­flokkinn, Mið­flokkinn og Um­hverfis­flokkinn. Ulf Kristers­son, for­maður hægri­flokksins Moderata, styðjist við Frjáls­lynda, Kristi­lega demó­krata og Sví­þjóðardemó­krata.

Sósíal­demó­krata­flokkurinn mælist lang­stærstur með 29 prósenta fylgi og vinstri­blokkin 49,7 prósent í könnunum. Hægri­blokkin mælist með 49 prósent en Moderata að­eins 17,6 prósent af því en Sví­þjóðardemó­kratar með 19,9. Birgir segir mikið fylgi Sví­þjóðardemó­krata hafa riðlað öllu blokka­kerfinu.

Hann segir að fái Sví­þjóðardemó­kratar meira upp úr kjör­kössunum en Moderata gæti það flækt stöðuna fyrir stjórnar­myndun á hægri­vængnum. Moderata geti ekki myndað stjórn án Sví­þjóðardemó­krata. For­dæmi séu þó fyrir því að minni flokkur stýri ríkis­stjórn.

Svo sem eftir dönsku kosningarnar árið 2015 þegar hægri­flokkurinn Ven­stre myndaði ríkis­stjórn með stuðningi Danska þjóðar­flokksins. Slíkt mynstur gæti lsést að nýju.

Mið­flokkurinn, sem áður sat í ríkis­stjórn með hægri­mönnum, flutti sig um blokk því hann vildi ekki neitt sam­starf með Sví­þjóðardemó­krötum, sem er rót­tækur hægri-popúlista­flokkur með rætur í ný­nasisma.

Flækjan á vinstri­vængnum lýtur að því að Mið­flokkurinn vill Vinstri­flokkinn ekki í stjórn og Vinstri­flokkurinn vill ekki styðja stjórn sem hann á ekki sæti í. Birgir á von á því að fái vinstri­blokkin meiri­hluta verði ó­breytt sam­starf, Sósíal­demó­kratar í ríkis­stjórn með þremur stuðnings­flokkum.

En völd eru ekki það eina sem kosningarnar snúast um. Orku­mál hafa verið fyrir­ferðar­mikil og vel­ferðar- og efna­hags­mál. Ein stærsta breytingin í sænskum stjórn­málum frá upp­hafi, aðildar­um­sókn að NATO, er ekki hita­mál.

Mestar efa­semdir heyrist þó frá Vinstri­flokknum.

„Flestir aðrir sam­þykkja þessa um­sókn. Sumir telja hana illa nauð­syn en aðrir hafa lengi stefnt að henni.“ Málið er hins vegar við­kvæmt vegna samninganna við Tyrki og krefjist því styrkrar ríkis­stjórnar.

Inn­flytj­enda­mál og mál tengd glæpum og gengjum hafa einnig verið í sviðs­ljósinu.

„Sví­þjóðardemó­kratar hafa fengið mikið fylgi út á þessi mál og þau hafa reynst ríkis­stjórninni erfið,“ segir Birgir