Á flokkráðsfundi Vinstri grænna sem haldinn var í gær og í dag, var sam­þykkt á­lyktun þar sem á­ætlun banda­rískra stjórn­valda um fram­tíðar­skipan á málum Ísraels og Palestínu er for­dæmd.

Í á­lyktuninni segir að á­ætlun banda­rískra stjórn­valda brjóti gegn al­þjóða­lögum með því að gera ráð fyrir að land­töku­byggðir Ísraela verði viður­kenndar sem ísraelskt land­svæði. Skorar flokksráðið á íslensk stjórnvöld að hvetja önnur ríki til þess að hafna áætluninni.

Áætlunin kyndi undir mismunun

„Á­ætlunin er bein ógn við friðar­um­leitanir á svæðinu, gengur gegn tveggja ríkja lausninni, úti­lokar Palestínu­menn frá á­kvarðana­töku um eigin fram­tíð og kyndir undir mis­munun gegn Palestínu­mönnum,“ segir meðal annars í á­lyktuninni.

Flokksráðið skorar á ís­lensk stjórn­völd að tala mál­stað Palestínu­mann á al­þjóð­legum vett­vangi í ljósi þess að Ís­land hefur viður­kennt Palestínu sem sjálf­stætt ríki. Þá hvetur flokks­ráðið ís­lensk stjórn­völd til þess að hvetja öryggis­ráð Sam­einuðu þjóðanna og önnur ríki til þess að hafna á­ætluninni.

Á­ætlunin, sem Donald Trump kynnti í síðasta mánuði hefur verið gagnrýnd fyrir að vera of hlið­holl Ísrael á kostnað Palestínu­.

Um­deild á­ætlun

Sam­kvæmt á­ætluninni þarf Ísrael ekki að skila Palestínu neinum af þeim land­töku­byggðum sem reistar hafa verið á Vestur­bakkanum og tryggja Ísraelum yfir­ráð yfir Jerúsalem. Þá lofaði Trump að tryggja Palestínu­mönnum al­þjóð­legum fjár­festingum upp á fimm­tíu milljarða dollara.

Donald Trump sagði þegar hann kynnti á­ætlunina að hún fæli í sér lausn sem bæði ríki myndu hagnast á. Það er hins vegar ó­hætt að segja að á­ætlunin hafi farið öfugt ofan í Palestínsk stjórn­völd.

Einungis nokkrum dögum eftir að hún var kynnt til­kynnti Mahmoud Abbas að Palestína myndi slíta öll tengsl við bæði Ísrael og Banda­ríkin. Sagði Abbas að hann hefði neitað að ræða á­ætlunina við Trump og að hann hefði ekki á­huga á því að fá ein­tak af henni.

Sam­starf í hættu

Ísraelar og Palestínu­menn hafa lengi starfað saman að lög­gæslu í land­töku­byggðum Ísraela á Vestur­bakkanum. Þá hafa palestínsk stjórn­völd og leyni­þjónusta Banda­ríkjanna verið í samstarfi til fjölda ára, meira að segja eftir að þau á­kváðu að hundsa friðar­um­leitanir Trump árið 2017. Friðar­á­ætlun Trump virðist hins vegar hafa sett þetta sam­starf í hættu.