Vinstri grænir hafa boðað til flokksráðsfundar á föstudag eftir viku í Sjóminjasafninu. Í pósti til félagsmanna segir að stjórn VG hafi ákveðið á fundi síðastliðinn föstudag að halda aukaflokksráðsfund vegna sveitarstjórnarkosninganna.

„Þar verður vonandi tilefni til að fagna góðum úrslitum og marka stefnuna fyrir svæðisbundið starf Vinstri grænna í öllum landshlutum framundan,“ segir í póstinum.

Reglur flokksins eru að ef 25 flokksráðsfulltrúar óska eftir fundi skal hann boðaður svo fljótt sem verða má og eigi síðar en innan þriggja vikna frá því að skrifleg beiðni þar um er send formanni flokksráðs.

Skoðanakannir hafa ekki verið hagfelldar VG undanfarið. Segir einn heimildarmaður Fréttablaðsins að kurr sé meðal flokksfélaga.

Björg Eva Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri VG, segir ekki einsdæmi í sögu flokksins að boða til flokksráðsfundar að loknum sveitarstjórnarkosningum. Hún segir að VG sé með sveitarstjórnarráð sem á síðasta kjörtímabili hafi komið saman einu sinni í mánuði og verið mikil lyftistöng fyrir starf VG. Tilgangurinn með flokksráðsfundinum sé ekki síst að halda áfram utan um það starf og koma því hratt og örugglega af stað aftur.

Björg Eva segir að flokksráðsfundurinn hafi ekki verið ákveðinn með hliðsjón af könnunum .