„Allir vita þegar Steingrímur J. Sigfússon stígur niður þá verður auðvitað samkeppni og það er ekki nema eðlilegt,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður VG í viðtali á Fréttavaktinni á Hringbraut í kvöld hjá Sigmundi Erni.

Landsfundi flokksins er nýaflokið en síðari hluti hans verður haldinn í haust.

Undirbúningur fyrir kosningaáherslur VG voru mótaðar á þessum fundi. Áhersla á loftslagsmálin var mjög áberandi á fundinum að sögn Katrínar.

En er engin ólga í baklandinu vegna samstarfsins við Sjálfstæðisflokkinn, ekkert stress í fólki eða er það bara allt í lagi?

„Mér finnst nú að mínir félagar hafa nálgast þetta bara eins og hvert annað verkefni, þetta er hreyfing sem er dáldið vön því að vera óvinsæl, eiginlega sama hvað við erum að gera, við erum svolítið vön því að taka svona ákvarðanir sem eru óvinsælar og það held ég að sé hluti svolítið af okkar sjálfsmynd en auðvitað er bara kosningafiðringur í fólki“, segir Katrín og hún merki ólgu heldur kosningaspenna.

Ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokksins.
Fréttablaðið/Ernir

Oddvitar og sitjandi þingmenn VG hafa fallið úr sætum sínum undanfarið í vali á lista flokksins í Suðvesturkjördæmi, Norðvesturkjördæmi og Norðaustukjördæmi. Það á við mjög reynda þingmenn eins og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, Ólaf Þór Gunnarsson og þar má nefna líka Kolbein Óttarson Proppé í Suðurkjördæmi þótt hann hafi verið nýr þar en þó sitjandi þingmaður.

Af hverju er ykkar fólk að falla af listum? Er það vegna þess að það sem er að gerast heima í héraði að þetta séu einhver skilaboð að það sé ekki allt í lagi innan flokksins?

„Nei, en þetta er auðvitað mjög mismunandi milli kjördæma, tökum sem dæmi Suðurkjördæmi þar hefur ekki verið haldið prófkjör í tólf ár, þar hefur verið þingmaður Ari Trausti Guðmundsson, frábær þingmaður en hann er náttúrulega ekki heimamaður í þeim skilningi þar kemur inn heimamannsekja sem sækist eftir þessu sæti, þrjár heimamanneskjur í efstu þremur sætum," segir Katrín. Hún bendir á að í Norðaustur losnaði oddvitasæti mikillar kanónu í flokknum og fyrrverandi formanns og þegar sá maður Steingrímur J. Sigfússon hætti þá verði barist um það sæti.

Steingrímur J. Sigfússon hef­ur leitt fram­boðslista í síðustu ellefu alþing­is­kosn­ing­um og fyrir VG síðan árið 1999.
Mynd/Fréttablaðið

Um Lilju Rafney segir Katrín: „Hún missir sitt oddvitasæti, hún er eini oddvitinn sem missir sitt sæti, það er hins vegar í baráttu við Bjarna Jónsson sem er sveitarstjórnarmaður og þau hafa náttúrulega att kappi, þetta er í fjórða skipti sem þau takast á í prófkjöri.“

„Þannig að þetta eru líka ólíkar aðstæður á milli ólíkra kjördæma.“

„Allir vita þegar Steingrímur J. Sigfússon stígur niður þá verður auðvitað samkeppni"

Katrín segir það hafa verið viðbúið að breytingar yrðu sem þessar þegar flokkurinn er búinn að vera í ríkssjórn. „Þetta er fólk sem hefur verið í flokknum lengi lengi. Þetta er áhrifafólk í flokknum líka,“ segir hún um þá sem tóku sætin af þingmönnunum og sitjandi oddvita eins og í Norðvestur kjördæmi.

„Tveir farsælir sveitarstjórnarmenn og varaformaðurinn sem ber sigur úr býtum og það þarf engum að koma á óvart.“ Þar á Katrín við Guðmund Inga Guðbrandsson, varaformann VG og Umhverfis- og auðlindaráðherra.

Lilja Rafney Magnúsdóttir er ein forystumanna sem missti oddvitasæti í prófkjör VG
Fréttablaðið/Anton Brink

Á heimasíðu ykkar stendur að þið séuð róttækt stjórnmálaafl. Í hverju er sú róttækni fólgin?

„Mér finnst það góð spurning því það má alltaf spyrja stjórnarflokk sem vinnur við það að gera málamiðlanir alla daga að spyrja: Hversu róttækur ertu? En ég get sagt á móti, það er meðal annars Vinstri hreyfinguni grænu framboði að þakka að alls konar lykilmálefni hafa komist á dagskrá samfélagsins og þar get ég nefnst loftslagsmálin sem ég held að við höfum fyrst allra sett á stefnuskrá og eru núna orðin meginstraumspólitík eða kvenfrelsi og feminismi sem við vorum náttúrulega talin vera hoppandi brjáluð að standa í.“

„En það breytir því ekki að þegar flokkar taka sæti í ríkisstjórn þar sem meginhlutverið er að finna sátt og lendingu, þá má alveg spyrja sig að því: Er þetta nægilega róttækt? Því það sem fólk sér á verkum okkar er auðvitað málamiðlun við aðra flokka,“ segir Katrín.