Sjálf­stæðis­flokkurinn bætir við sig fylgi og mælist með 24,5 prósent fylgi á lands­vísu. Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu um fylgi stjórn­mála­flokka á lands­vísu, sem send var á fjölmiðla fyrr í dag.

Flokkurinn bætir við sig 2,5 prósentu­stig á milli kannana.

Sjálf­stæðis­flokkurinn virðist taka fylgi frá Vinstri grænum en þau tapa 3,6 prósentu­stigum á milli kannana og mælast með 9,3 prósent fylgi, en það er 2,3 prósentu­stig frá kjör­fylgi flokksins.

Fram­sóknar­flokkurinn mælist með 17,2 prósent fylgi og bæta við 0,3 prósentu­stig á milli kannana.

Stjórnin með nauman meirihluta

Saman­lagt fylgi stjórnar­flokkana er því 51 prósent og hafa þeir því tapað ör­litlu fylgi frá kosningunum, en í þeim fengu stjórnarflokkarnir 54,3 prósent at­kvæða.

Skjáskot-könnun Maskínu

Píratar í hástökki en Samfylking dalar

Píratar mælast þriðji stærsti flokkurinn og hafa 13,7 prósent fylgi, það er aukning um 3,4 prósentu­stig á milli kannana. Píratar hafa tekið mikið stökk frá kosningum síðasta haust, en þá fékk flokkurinn 8,6 prósent at­kvæða. Aukningin er því um 5,1 prósentu­stig frá kosningum.

Sam­fylkingin mælist með 12,1 prósent fylgi og tapar 1,3 prósentu­stigum á milli kannana. Við­reisn mælist með 8,5 prósent fylgi og tapa 1,2 prósentu­stigum á milli kannana. Flokkur fólksins mælist með 7,1 prósent fylgi og tapar hálfu prósentu­stigi á milli kannana. Aðrir flokkar mælast með undir 5 prósent fylgi og kæmu því ekki manni inn á þing ef kosið yrði í dag.

Könnunin var fram­kvæmd dagana 17. febrúar til 9. mars og óku 2.333 svar­endur af­stöðu. Um netkönnun var að ræða. Svar­endur voru á aldrinum 18 ára og eldri og voru svör vegin sam­kvæmt mann­fjölda­tölum Hag­stofunnar.