Guttormur Þorsteinsson, formaður Samtaka hernaðarandstæðinga, kveðst vera gapandi yfir því hvernig flokkur forsætisráðherra, Vinstri græn, láti Sjálfstæðisflokknum eftir utanríkisstefnuna við ríkisstjórnarborðið. Fyrir vikið sé svo komið að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra, skipuð af þeim flokki, ráði allri utanríkisstefnu landsins.

Fréttablaðið greindi frá því á miðvikudag að vaxandi hernaðarumsvifa Bandaríkjahers sjái stað á Keflavíkurflugvelli, vegna aukinnar spennu á milli Rússa og Úkraínumanna, en fyrir vikið hefur kafbátaleitarflug hersins frá Keflavík og allt yfir til Eystrasalts aukist til muna.

Friðþór Eydal, fyrrverandi upplýsingafulltrúi Varnarliðisins, orðaði það svo í fréttinni að herinn væri í reynd að bygga að nýju upp aðstöðu sína á vellinum – og koma þar margir verkþættir til sögunnar, svo sem uppbygging færanlegrar aðstöðu fyrir herlið, stækkun flughlaðs fyrir herinn og viðhald á flugskýlum. Þá er einnig verið að byggja upp svæði til að meðhöndla hættulegan vopnabúnað og endurnýja þvottastöð fyrir leitarvélarnar.

Guttormur er hvumsa yfir viðbrögðum VG við hernaðarumsvifum Bandaríkjahers.

Guttormur segir að þessi umskipti í utanríkis- og öryggismálum þjóðarinnar megi rekja aftur til bókunar á varnarsamningi á milli Íslands og Bandaríkjanna árið 2016, en þá hafi Lilja Alfreðsdóttir, þáverandi utanríkisráðherra, „opnað á aukin umsvif Bandaríkjahers á vellinum og gefið honum sjálfdæmi um hvaða vígbúnaðaruppbygging væri nauðsynleg hér á landi.“

Í reynd hafi Alþingi Íslendinga verið rænt völdum í þessum efnum af völdum þessarar bókunar. Hér ríki fyrir vikið ráðherraræði í utanríkismálum – og einu afskipti þingsins séu að fara yfir tilkynningar ráðuneytisins um hvaða hernaðaruppbygging sé næst á döfinni.