Beðið er eftir því hvaða skref Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tekur næst til að reyna að lægja öldurnar, bæði innan VG og í samfélaginu, vegna sölunnar í Íslandsbanka. Katrín hefur verið í útlöndum í fríi undanfarna daga.

Að sögn Hennýar Hinz, aðstoðarmanns Katrínar, mun forsætisráðherra ætla að tjá sig um framhald málsins við fjölmiðla í dag. Fólk í lykilstöðum innan VG sem rætt var við í gær vill ekki tjá sig um málið en bíður eftir útspili Katrínar. Bjarni Jónsson, þingmaður VG, hefur gagnrýnt framkvæmd útboðsins og krafist afsagnar stjórnar og forstjóra Bankasýslunnar.

Mótmælt var á Austurvelli á föstudaginn langa á vegum nokkurra ungliðahreyfinga að frumkvæði Sósíalistaflokksins. Þar á meðal voru ungir Píratar.

Halldóra Mogensen, formaður þingflokks Pírata, segir algerlega óáættanlegt að Íslandsbankamálið fari til Ríkisendurskoðunar, eins og stjórnarmeirihlutinn hefur ákveðið, en ekki til sérstakrar rannsóknarnefndar.

Ríkisendurskoðun hafi ekki heimildir til að rannsaka svo alvarlegt mál ofan í kjölinn. Ríkisendurskoðun hóf úttekt fyrir helgi.

Halldóra segir að þeir sem gæfu skýrslu fyrir sérstakri rannsóknarnefnd mundu njóta meiri friðhelgi frá hugsanlegri sakamálarannsókn.

„Ríkisendurskoðun getur ekki skikkað menn til að koma í skýrslutöku en það gæti sérstök rannsóknarnefnd gert, eins og í bankahruninu. Því mun úttekt Ríkis­endurskoðunar aldrei geta tengt saman alla þá þræði sem nauðsynlegt er í þessu máli. Það er ekki nóg að tala við ráðherra og Bankasýsluna, það þarf að upplýsa um alla milliliðina sem komu að þessu máli,“ segir Halldóra.

Þá kveðst Halldóra telja skipta miklu máli að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sé að kalla eftir rannsókn á eigin forsendum. Sérstök rannsóknarnefnd á vegum Alþingis sé allt annað mál.

„Þá hef ég einnig áhyggjur af því að það er enginn ríkisendurskoðandi starfandi,“ segir Halldóra.

Eins og fram hefur komið í fréttum hefur Skúli Eggert Þórðarson ríkisendurskoðandi verið skipaður í embætti ráðuneytisstjóra menningar- og viðskiptaráðuneytis.