Vinstrihreyfingin grænt framboð ætlar sér ekki í meirihluta í Reykjavík. Þetta kemur fram í Facebook-færslu oddvita flokksins, Lífar Magneudóttur. Hún segist hafa ráðfært sig við flokksfélaga sína og tilkynnt öðrum úr fráfarandi meirihluta þetta í dag.

„Eftir að hafa ráðfært mig við félaga mína erum við sammála um að niðurstaða kosninganna kalli á að við Vinstri græn leggjumst vel yfir það hvernig okkur getur tekist betur að koma okkar málefnum til skila. Til þess ætlum við að gefa okkur svigrúm. Ég tilkynnti því samstarfsfélögum mínum í fráfarandi meirihluta að við Vinstri græn sækjumst ekki eftir því að taka þátt í viðræðum um meirihlutasamstarf.“ skrifar Líf.

Vinstri græn héldu sínum eina manni í borginni, en misstu fylgi og fengu fjögur prósent kosningu.

Líf segir að niðurstöðurnar séu veruleg vonbrigði og að flokkurinn hafi haft meiri væntingar. Hún fullyrðir þó að Vinstri græn ætli sér að veita þeim meirihluta sem verði myndaður „öflugt og málefnalegt aðhald“ og þá segist hún tilbúin í samstarf um mál er varði framgang femínisma, félagslegt réttlæti, umhverfisvernd og loftslagsaðgerðir.