Björk Eiðsdóttir
bjork@frettabladid.is
Föstudagur 26. mars 2021
23.00 GMT

Nú um páskana verður frumsýnd ný þáttaröð, Systrabönd, í leikstjórn Silju, en hún er framleidd af Sagafilm fyrir Sjónvarp Símans og Viaplay í samstarfi við Sky Studios á Bretlandi.

„Það er gaman að vera inni í þessari gerjun sem er, virðist vera, í sjónvarpsheiminum. Ég hef á tilfinningunni að hún hafi aukið þol okkar áhorfenda gagnvart ólíkum frásagnarleiðum og hegðun. Það er komið meira leyfi til að brjóta áður fastmótaðar reglur og við sem áhorfendur virðumst tilbúin í alls konar slaufur og útúrdúra sem í gamla daga þóttu kannski ekki eftir bókinni. Ég held að landslagið sé að verða opnara gagnvart fjölbreytileika, fjölmenningu, konum í ýmsum myndum, öllum kynjum og fólki af öllum gerðum.“

Kvenvinsamleg þróun


Silja segir þessar breytingar í sjónvarpsefni vera til komnar vegna nauðsynlegra viðhorfsbreytinga í heiminum sem áhorfendur séu að fá beint í æð í gegnum sjónvarpsseríur.

„Við höfum nú aðgang að svona skálduðum veruleika með einu klikki. Sjónvarpsseríur hafa í kjölfarið öðlast meiri viðurkenningu sem dýrmætt listform, sem er okkur öllum mikilvægt og nálægt. Það verður því vonandi minni poppstjörnukúltúr og minni úrvalshyggja með tímanum og þessi þróun held ég að sé kvenvinsamleg.“

„Þetta er svona vinsamleg yfirtaka,“ segir hún. Aðspurð hvort þetta skipti hana máli svarar hún ákveðin: „Þetta skiptir mig máli og þetta skiptir okkur öll máli.“


Drulluköflóttar konur


Silja sem var einn handritshöfunda og leikstjóri kvikmyndarinnar Agnes Joy, sem sló í gegn árið 2019 og var framlag Íslendinga til Óskarsverðlauna nú í ár, hefur í gegnum tíðina verið dugleg við að segja sögur af konum.

„Mig langar að segja sögur kvenna. Sérstaklega eftir að ég gaf sjálfri mér leyfi til að segja sögur af alls konar konum og áttaði mig á því að það væri ekki frumskylda mín sem leikstjóra, sem mér fannst dálítið svona framan af, að ég þyrfti að gera það sama hvort mér líkaði betur eða verr. Svo varð það svo gaman þegar ég áttaði mig á því að ég mætti gera það, en þyrfti þess ekki.

Eftir að ég fattaði að mér ber heldur ekki skylda til að búa til sterkar, fullkomnar og gallalausar valkyrjukonur, heldur mega þær vera jafn drulluköflóttar og ég sjálf og flest lifandi fólk er. Það er gjöfult að geta miðlað slíkum sögum,“ segir Silja með áherslu.


Áföll og vandamál erfast


En aftur að Systraböndum, þáttunum sem eru skrifaðir af þeim Jóhanni Ævari Grímssyni og Björgu Magnúsdóttur, en eftir nokkurra ára yfirlegu kom framleiðandi Sagafilm, Tinna Proppé að máli við Silju og bað hana að leikstýra verkinu og tók þá við áframhaldandi vinna með höfundum, ásamt Jóhönnu Friðriku Sæmundsdóttur sem kom einnig inn í teymið.

Silja segir söguna snerta vissar taugar hjá henni, en hún fjallar um þrjár æskuvinkonur sem neyðast til að takast á við dimma fortíð sína.

„Talandi um köflóttar konur – þá eru þessar það svo sannarlega. Þær eru gerendur í ofbeldismáli og skýrari verða mistökin varla. Það var einna helst þessi yfirhylming sem heillaði mig, að lifa í svona mikilli skömm sem þú gengst ekki við og hvaða djúpstæðu áhrif það hefur á þig, líf þitt og allra í kringum þig.

Við veltum því mikið fyrir okkur í skrifferlinu, hvernig áföllin og vandamálin erfast milli kynslóða og hversu skemmandi áhrif þau hafa þegar þau eru ekki tekin upp og skoðuð. Hvað það að reyna að fela eitthvað getur flækt lífið og það verður mjög skýrt í þeirra tilfelli. Þetta var líka ágætis speglun og hvati til að minna mig og vonandi aðra á að drífa sig bara að gangast við mistökum og skoða það sem við höfum lent í. Það er svo óökónómískt að eyða tíma í að fela þau,“ segir Silja og hlær.


„Þetta var líka ágætis speglun og hvati til að minna mig og vonandi aðra á að drífa sig bara að gangast við mistökum og skoða það sem við höfum lent í."


Þegar hún er spurð út í hvað hún hafi farið að endurhugsa svarar hún:

„Ég er bara alltaf að endurhugsa allt. Það er kannski aðaláhugamálið mitt, það ferðalag. Núna get ég næstum tekið nótu fyrir þessari endurhugsun og kallað það vinnu. Því meira sem ég velti upp einhverju rugli hjá sjálfri mér, því betri er ég í vinnunni og öfugt. Ég reyni að vera dugleg að fylgjast með mér og það er líka ógeðslega gaman að vinna svona í sér,“ segir Silja, sem er dugleg að vinna í andlegu og líkamlegu hliðinni enda meðvituð um að þær tvær haldist í hendur.

„Ég get samt ekki hreyft mig nema það sé gaman. Það er ekki næg gulrót fyrir mig að ég eigi að gera það, það er ekki nægilegur hvati til lengri tíma.“


Laus við hamingjupressuna


Silja segir að miðað við harm heimsins sé vandi hennar svo mikið hjóm að það tók hana tíma að viðurkenna að hún mætti tala um hann.

„Þegar ég svo áttaði mig á því að stórt fyrir mér ætti að vera nóg fyrir mig til að gera eitthvað í því, þá fór ákveðin stífla. Í kjölfarið gat ég farið að taka á hlutunum af þeim þunga sem þeir eiga skilið og takast á við verkefni sem lífið er sífellt að færa manni, og þau eru oft risastór.“

Silja Hauksdóttir leikstjóri segir gjöfult að segja sögur af konum sem séu jafn köflóttar og hún sjálf en ekki alltaf sterkar, fullkomnar og gallalausar valkyrjukonur. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Silja segir jafnframt lífið hafa orðið auðveldara og skemmtilegra þegar hún áttaði sig á því að það þyrfti ekki alltaf að vera gaman, það mætti stundum vera líka erfitt, leiðinlegt og pínu glatað.

„Það er fínt að vera í sátt við það og setja ekki á sig of mikla hamingjupressu. Að geta sætt sig við að sumt sé einfaldlega drulluerfitt og vita að það þurfi ekki endilega strax að laga það eða fixa. Það þýðir heldur ekki að það geti ekki á sama tíma verið fyndið, skrýtið eða stórkostlega ósmekklegt og hörmulega frábært.

Ég held við séum oft aðeins of ánægjuupptekin, það á allt að vera svo ánægjulegt. En mér finnst einmitt svo gaman að skoða það sem er það ekki. Svo erum við líka eitthvað skökk með að halda að það sé allt svo ánægjulegt hjá öllum öðrum,“ segir Silja og talið berst að þeim eilífa samanburði sem við í dag lifum við í gegnum samfélagsmiðla.


„Ég held við séum oft aðeins of ánægjuupptekin, það á allt að vera svo ánægjulegt. En mér finnst einmitt svo gaman að skoða það sem er það ekki."


„Auðvitað hefur það áhrif ef þetta er það eina sem þú sérð. Við fáum svo skakkar myndir. Við getum ekki látið það koma okkur á óvart að börn verði fyrir útlitsdýrkunaráhrifum þó við séum ekki endilega að búa þau til heima hjá okkur. Það er bara til heilt júnivers af áhrifum og það er dálítið ógnvænlegt .“

Fannst hún hvergi passa


Silja hefur undanfarna tvo áratugi skrifað handrit og leikstýrt, en aðspurð að því hvaðan þörfin fyrir að segja sögur komi, á hún ekki svar.

„Ég byrjaði snemma á að láta fólk horfa og hlusta á mig, með öllum þeim ráðum sem ég fann. Ég held ég hafi alveg verið plássfrekt barn. Mamma og pabbi segja að ég hafi verið algjört ljós en ég held að þau séu annað hvort með Stockholm syndrome eða í smá tráma. Ég held ég hafi bara verið vesen,“ segir hún með léttri áherslu.


„Mamma og pabbi segja að ég hafi verið algjört ljós en ég held að þau séu annað hvort með Stockholm syndrome eða í smá tráma. Ég held ég hafi bara verið vesen.“


„Ég var bæði týpan sem fór upp á borð og var með læti en líka alveg týpan sem skreið undir borð þegar það var einhver góð frænka í heimsókn, til að hlera. Þá heyrði ég sérhvert orð og svo hékk ég í leyni í stigum á náttkjól og leitaði allra leiða til þess að hlera og hlusta á fullorðna fólkið.

Ég veit ekki hvort þau viti þetta en ég hleraði líka símtölin þeirra, landlínan var vinur minn og ég var orðin góð í að láta ekki heyra í mér þegar ég lyfti símtólinu hinum megin,“ rifjar hún upp hlæjandi.

Kvikmyndin Agnes Joy í leikstjórn Silju var framlag Íslands til Óskarsverðlauna, en hún segir Óskarinn í sínum huga eins og einhyrninga fyrir börnum. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Silja kynntist leiklistarstarfi í Menntaskólanum við Hamrahlíð og segir að þá hafi eitthvað smollið hjá henni.

„Það var gaman að kynnast einhverju sem ég tengdi við og snerist um eitthvað nýtt, tilfinningar og texta, sögur, spuna, raddir og í rauninni fjölbreytileika. Ég var seinþroska og frekar asnalegur unglingur sem fannst ég hvergi passa, ég hélt að ég ætti aðallega að vera sæt og til friðs en tókst það að eigin mati illa, en í gegnum leiklistarstarf opnaðist heill heimur.

Stjúpforeldrahlutverkið flókið

Silja er í sambúð með Dýra Jónssyni og eiga þau saman eina dóttur, Æsu, fimm ára, en fyrir átti Dýri þrjá syni. Silja hafði verið einhleyp um hríð þegar vinkona hennar, þekkjandi þau bæði, stakk upp á að þau drægju sig saman.

„Ég hafði kannast við Dýra síðan í menntaskóla en svo fékk vinkona okkar þá hugmynd að við værum góð saman. Hún deildi með mér þessari hugmynd, ég útilokaði hana ekki og var opin fyrir því að máta hana aðeins við mig.

Við Dýri hittumst svo stuttu seinna í partýi og ég hafði dregið gyðjuspil fyrr um kvöldið með vinum mínum, sem var mjög hvetjandi spil. Þannig að ég dró andann djúpt, komin með leið á því að hafa þetta sem eitthvað opið mál, og gekk skjálfandi upp að honum og tók hann á löpp. Hann reyndist vera rosa opinn fyrir þeirri hugmynd,“ rifjar Silja upp á sinn einstaka hátt.


„Þannig að ég dró andann djúpt, komin með leið á því að hafa þetta sem eitthvað opið mál, og gekk skjálfandi upp að honum og tók hann á löpp. Hann reyndist vera rosa opinn fyrir þeirri hugmynd.“


„Svo þegar við vorum að labba samferða heim rann upp fyrir honum ljós og hann áttaði sig á að ég væri stelpan sem vinkonan hafði nefnt við hann. Hann hafði séns á að stoppa þarna en ákvað sem betur fer að gera það ekki,“ segir hún og hlær.

Silja var barnlaus en Dýri eins og fyrr segir faðir þriggja drengja.

„Ég hafði áður verið í sambúð með manni sem á börn og vissi fyrir fram að það getur bæði verið yndislegt og flókið í senn. Það stækkar lífið dásamlega en þetta stjúpforeldrahlutverk er samt alls ekkert einfalt. Ég vissi það en verð að viðurkenna að ég pældi ekki mikið í því. Það vantaði allan efa í þetta mál. Við vorum bæði viss og vitlaus. Og sem betur fer veit maður ekki fyrr en maður er byrjaður á svona framkvæmdum hversu mikið mál þær geta orðið,“ segir Silja, en þessa stundina standa þau Dýri einmitt í framkvæmdum á nýju framtíðarheimili fjölskyldunnar.


„Það stækkar lífið dásamlega en þetta stjúpforeldrahlutverk er samt alls ekkert einfalt. Ég vissi það en verð að viðurkenna að ég pældi ekki mikið í því. Það vantaði allan efa í þetta mál. Við vorum bæði viss og vitlaus."


Ég er að reyna mitt besta


Aðspurð segist Silja ekki hafa mikið leitt hugann að barneignum en hún hafi alltaf haft tilfinningu fyrir því að hún myndi eignast börn seint á lífsleiðinni.

„Ég hafði ekkert fyrir mér í því en með þessu bjó ég til rosalega litlar væntingar og pælingar hjá sjálfri mér. Eins og þetta væri bara einhver fasti sem ég tók aldrei upp né velti fyrir mér hvort ég vildi breyta þessu eða hvort ég væri sátt.

En svo fór ég í partý og bæng, reyndi við mann og bæng, byrjaði með honum og bæng, varð ólétt,“ segir hún í léttum tón.

„Þetta gerðist svolítið mikið bæng. Við byrjuðum að búa sama ár og við hittumst og Æsa kom í heiminn tveimur árum og tveimur dögum eftir þetta örlagaríka kvöld. Þetta var því ágætlega nýttur tími,“ segir Silja, sem fór af stað í fæðingu á fertugsafmælisdaginn sinn.

Eins og heyra má fór sambandið hratt af stað og fjölskylda Silju margfaldaðist á mettíma. „Miðað við að við vorum ekki tvö um þá ákvörðun að bræða saman líf okkar, þá vorum við kannski svolítið snögg að þessu,“ segir hún einlæg.


„Miðað við að við vorum ekki tvö um þá ákvörðun að bræða saman líf okkar, þá vorum við kannski svolítið snögg að þessu."


„Ég er að reyna mitt besta og það lítur alls konar út. En við erum heppin, því þetta eru hjartahlýir og góðir strákar sem eiga góða foreldra. Þeir eru líka að reyna sitt besta svo ég er heppin að hafa ekki mætt andsnúnu viðhorfi. Það eru allir að reyna að láta þetta ganga, sem er gott, því það er átak að bræða saman fjölskyldu og ég finn mig síendurtekið í þeirri stöðu að þurfa að skoða eitthvað hjá sjálfri mér þegar ég rekst á hindranir í því.


Mósaíkfjölskyldumynstur


Það að vera í foreldrahlutverki er krefjandi og þú ert aldrei sátt við þig nema þú sinnir því af heilum hug og þú ert alltaf til í að draga allt sem þú gerir í efa og finnast þú ekki gera nóg, eða eitthvað vitlaust. Mér finnst þetta mjög afhjúpandi hlutverk. Svona mósaíkfjölskyldur eins og mín eru mjög algengt fjölskylduform á Íslandi.

Og um það fjallar einmitt næsta bíómynd sem ég er að skrifa með Snjólaugu Lúðvíksdóttur handritahöfundi, vaxtarverkir nýrrar fjölskyldu sem verður til svona á seinni stigum. En sú saga er líka algjör skáldskapur, og mun meira djúsí og dramatísk, myrkari og skrýtnari en líf mitt, sem betur fer.“

Silja segir stjúpmóðurhlutverkið bæði yndislegt og flókið en hún á þrjá stjúpsyni með Dýra, sambýlismanni sínum. Saman eiga þau svo eina dóttur, Æsu sem er fimm ára, en Silja var orðin fertug þegar dóttirin kom í heiminn. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Vinnuorka Silju hefur að hennar sögn verið há undanfarin ár, en hún var nýkomin úr mastersnámi þegar hún fór í tökur á Agnesi Joy. Á síðasta ári var svo Kópavogskrón­ika sem Silja vann leikgerðina að ásamt Ilmi Kristjánsdóttur og leikstýrði, frumsýnd í Þjóðleikhúsinu og í næstu viku hefst eins og fyrr segir þáttaröðin Systrabönd í Sjónvarpi Símans.

Tökurnar ákveðin hvíld


„Tarnirnar þekki ég og skil. Mér finnst þær fínar enda er líka ákveðin hvíld að fara í tökur. Þú ferð ekkert í Bónus á meðan, tekur ekki upp gluggapóstinn og þú heldur ekki matarboð. Þú ert allavega með góða afsökun fyrir því að vera léleg í hversdagslífinu og þannig er þetta í rauninni smá frí líka.“


„Þú ferð ekkert í Bónus á meðan, tekur ekki upp gluggapóstinn og þú heldur ekki matarboð. Þú ert allavega með góða afsökun fyrir því að vera léleg í hversdagslífinu og þannig er þetta í rauninni smá frí líka.“


Silja segir tímabilin inn á milli flóknari.

„En ef maður ætlar sér ekki að missa þrekið og gleðina verður maður að stinga í samband og hlaða feitt inn á milli og það er stundum dáldið flókið að muna eða finna út úr hvernig ég geri það.“

Einhyrningur og glimmer

Talið berst aftur að kvikmyndinni Agnesi Joy sem valin var sem framlag Íslendinga til Óskarsverðlaunanna þó það hafi ekki endað með tilnefningu.

„Ég er mjög stolt af Agnesi Joy og það var yndislegt að finna viðbrögðin við henni. En að tala um Óskarinn í tengingu við mig og þessa mynd finnst mér pínulítið eins og að ræða einhyrninga við börn. Ég á enga rauntengingu við þetta og þetta er ekki partur af mínum raunveruleika. Ég er hvorki að taka það niður né upphefja það, þetta er bara einhyrningur, glimmer í ævintýri,“ segir Silja, en hlær að því að fólk hafi ekki endilega gert greinarmun á því hvað er framlag Íslands til Óskarsins og því að fá svo Óskarstilnefningu.

„Svo í hundrað og tuttugasta skiptið sem einhver óskaði okkur til hamingju með Óskarinn, þá hætti ég bara að leiðrétta og sagði bara takk – ég er þá alla vega búin að fá hann einu sinni,“ segir hún hlæjandi að lokum.

Athugasemdir