Alls hafa um 87 þúsund einstaklingar gengið að gosinu samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Samkvæmt talningunni eru mánudagar og fimmtudagar óvinsælastir en í svari Ferðamálastofu við fyrirspurn Fréttablaðsins kemur fram að bæði veður og lokanir almannavarna geti haft áhrif á aðsókn og tölurnar.

Innan hvers sólarhrings hefur verið vinsælast frá upphafi að ganga að gosinu um kvöldmatarleyti, eða á milli 18 og 20. Um helgar og á frídögum hefur fólk farið fyrr og þá hefur vinsælast verið að ganga um hádegisbil en í talningunni í Mælaborði ferðaþjónustunnar er hægt að sjá bæði fjölda hvers dags og svo fjölda á hverri klukkustund á hverjum degi.

Í gær, 11. maí, var sem dæmi mestur ágangur um klukkan 20 en sólsetur erum 22.28 sem gæti útskýrt af hverju mestur fjöldi er svo seinn á ferð.

Í svari Ferðamálastofu kemur fram að almennt hafi ágangurinn verið mestur fyrstu viku talningar en talning hófst þann 24. mars, fimm dögum eftir að gosið hófst.

Eins og má sjá í yfirliti talningunnar virðist fjöldinn hafa náð ákveðnu jafnværi um mánaðarmótin eftir að gosið hófst en hefur aukist aðeins undanfarna daga.

Hafa ber í huga að aðeins er um að ræða fjölda gangandi ferðamanna á stikuðu leiðinni. Fjöldinn er eflaust meiri því margir hafa farið gangandi eða hjólandi að gosinu eftir öðrum leiðum. Þá segir í svari Ferðamálastofu að bílaumferðin geti valdið álagi á svæðinu en ekki eru til tölur yfir hana hjá þeim. En ekki er víst að hún sé í samræmi við fjölda gangandi ferðamanna.

Hér að neðan má sjá fjöldatölur eftir dögum frá því að talning hófst:

Mánudagur: 9.175

Þriðjudagur: 12.571

Miðvikudagur: 14.859

Fimmtudagur: 8.887

Föstudagur: 14.094

Laugardagur: 11.579

Sunnudagur: 16.771

Talningu Ferðamálastofu er hægt að skoða hér.