Vinnustaðarmenning hjá Orkuveitu Reykjavíkur(OR) og dótturfyrirtækjum er betri en gengur og gerist á íslenskum vinnumarkaði, að því sem fram kemur í niðurstöum óháðrar úttektar á starfsmannamálum hjá OR samstæðunni. 

Á blaðamannafundi í dag voru niðurstöður rannsóknarinnar kynntar, en líkt og Fréttablaðið greindi fyrst frá voru uppsagnir þeirra Áslaugar Thelmu Einarsdóttur og Bjarna Más Júlíussonar hjá Orku náttúrunnar taldar réttmætar. Ábendingar um framkvæmd uppsagnanna voru kynntar í úttektinni.

Hefði átt að fá skriflegar skýringar á uppsögn

Úttektarteymi innri endurskoðunar ræddi við fjölda fólks innan og utan OR, rýndi í gögn og dró af þeim ályktanir. Sem fyrr segir voru uppsagnir Áslaugar og Bjarna metnar réttmætar. 

Áslaug Thelma fékk skýringar á uppsögn sinni en frekari skýringum sem boðnar voru fram á fundi var hafnað. Ábending er í skýrslunni um að hún hefði átt að fá skriflegar skýringar á uppsögn. 

Þá komu fram ábendingar um að skerpa þurfi á verklagi og ferlum varðandi uppsagnir starfsfólk. Eins var lagt til að orðsporsáhætta vegna umræðu á borð við þá sem skapaðist verði metin sérstaklega og aðgerðaáætlanir fyrirtækisins uppfærðar.

Sjá einnig: Uppsögn Áslaugar metin réttmæt

Kostnaður af úttektinni ekki ljós

Á fundinum var Helga Jónsdóttir, starfandi forstjóri Orkuveitunnar, meðal annars spurð hver kostnaðurinn á úttektinni hefði verið. „Ég hef þær tölur ekki á hreinu á þessari stundu. Við erum ekki búin að fá neina reikninga frá innri endurskoðun en þetta á eftir að koma í ljós.“ 

Helga hefur sinnt starfi forstjóra OR frá því Bjarni Bjarnason steig til hliðar. Hann mun taka við starfi forstjóra að nýju á mánudaginn. 

Sjá einnig: Rekinn með skömm en fær laun í sex mánuði

Innan við eitt prósent orðið fyrir kynferðislegu áreitni í starfi  

Félagsvísindastofnun gerði í byrjun október könnun meðal starfsfólks Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélaga til að greina vinnustaðarmenningu og meta umfang og eðli kynferðislegrar áreitni hjá OR. Niðurstöðurnar voru þær að almennt væri fólk ánægt í starfi og starfsánægja væri almennt meiri hjá konum en körlum. 

Sjá einnig: Áslaug Thelma vissi ekkert um úrskurðinn

Þá hafa 0.7 prósent starfsmanna orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi á síðustu tólf mánuðum, sem er minna en gengur og gerist á vinnumarkaði.

Sjá einnig: Innri endurskoðun óháð pólitískum fyrirmælum

Þegar spurt var um hegðun sem fellur undir skilgreiningu kynferðislegrar áreitni án þess að nefna kynferðislega áreitni hækkaði hlutfall núverandi og fyrrverandi starfsmanna sem sögðust hafa orðið fyrir slíkum atvikum Þrjú prósent starfsmanna höfðu orðið fyrir einelti í starfi sínu síðustu tólf mánuði.