Íslendingurinn heppni sem vann rúmlega 1,2 milljarða í Víkingalottói í gær mætti í morgun á skrifstofu Íslenskrar getspár og ræddi við fjármálaráðgjafa.

„Hann hefur komið hingað og við veitum honum fjármálaráðgjöf. Hér var ráðgjafi vinningshafanum til halds og trausts,“ segir Pétur Hrafn Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Íslenskrar getspár, en allir stórir vinningshafar fá ráðgjöf um hvernig best sé að fjárfesta og fara með svona stóra vinninga.

„Almennt séð fá vinningshafar ráðgjöf um hvernig best sé að feta sig. Að huga að fjárfestingum og reyna ekki að sigra heiminn. Þeir fá almenna fjármálaráðgjöf frá endurskoðendum,“ útskýrir Pétur.

Ein skattfrjáls greiðsla

Vinningshafinn var að ganga út af skrifstofunni þegar Fréttablaðið hringdi í Pétur Hrafn. Aðspurður um vinninginn segir Pétur að það sé fjögurra vikna kælitími.

„Þetta er greitt út í einni greiðslu. Greiðslan mun berast vinningshafa eftir fjórar vikur. Hann fær allan peninginn í vasann enda er þetta alveg skattfrjálst,“ segir Pétur í samtali við Fréttablaðið.

Um er að ræða stærsta vinning sem hefur komið til landsins og svo virðist sem vinningurinn sé um fimm sinnum hærri en sá næststærsti hingað til, alls 1.270.806.970 krónur.

Aðspurður hvort vinningshafinn vilji koma fram opinberlega segir Pétur Hrafn að það sé ólíklegt.

Pétur Hrafn Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Íslenskrar getspár.