Fjölskyldufaðir á fertugsaldri sem býr á höfuðborgarsvæðinu er vinningshafinn sem hreppti langstærsta lottóvinning Íslandssögunnar, rúmlega 1.270 milljónir króna. Hann mætti á skrifstofu Íslenskrar getspár í Laugardalnum í morgun til að þiggja boð um fjármálaráðgjöf. Hann fær 1.270.806.970 krónur í einni greiðslu, en ekki í dag heldur eftir fjórar vikur — skattfrjálst.

„Ég veit að þetta hljómar eins og ég sé að skrökva en hann var ótrúlega rólegur,“ segir Halldóra María Einarsdóttir, markaðsstjóri Íslenskrar getspár, í samtali við Fréttablaðið. Hún hitti vinningshafann í morgun en hann hyggst ekki koma fram undir nafni og hefur verið ráðlagt að fara ekki í viðtöl.

Maðurinn keypti miðann á lotto.is, hann er ekki í áskrift og valdi sjálfur tölurnar og innihéldu þær meðal annars afmælisdaga einstaklinga í lífi hans.

Vinningshafinn er enn að melta þetta að sögn Halldóru. Dagskráin hans er þétt í dag og hann heldur öllum plönum óbreyttum næstu daga og vikur, líkt og ekkert hafi breyst.

„Hann er ennþá að átta sig á þessu en er pollrólegur og á eftir að taka allar ákvarðanir um framhaldið. Þetta er næstum 1,3 milljarðar. Hann þarf meira en 12 til 14 tíma til að melta þetta.“

Vinningstölurnar innihéldu meðal annars afmælisdaga einstaklinga í lífi vinningshafans.
Mynd: Íslensk getspá

Hefur ekki sagt foreldrum sínum

Í tilkynningu frá Íslenskri getspá kemur fram að fyrstu viðbrögð vinningshafans hafi verið að fara í góðan göngutúr. Hann hefur deilt fregnunum með einni manneskju, konunni sinni, sem hann gerði að loknum göngutúrnum. Hann hyggst segja foreldrum sínum og nánustu fjölskyldu góðu fréttirnar í eigin persónu á næstu dögum.

„Hann er mjög passasamur. Enginn veit þetta, nema konan hans. Hann hefur ekki einu sinni sagt foreldrum sínum. Hann lýsti yfir áhyggjum um að þetta myndi berast manna á milli. Það skiptir honum miklu máli að það sé ekki hægt að rekja þetta til hans og við pössum alltaf upp á það,“ útskýrir Halldóra María.

Hann sagði í samtali við starfsmenn Íslenskrar getspár að hann muni hafa skynsemina að leiðarljósi.

„Þetta er náttúrulega stjarnfræðileg tala. Þegar við spurðum hann hvað hann ætlaði að kaupa sér sagði hann: „Ég veit það ekki“ og hló,“ segir Halldóra María.