Stundum þarf maður hjálp frá fjölskyldumeðlimum en það er einmitt markmið mitt að fjölskyldan og vinir komi saman og baki upp úr bókinni. Ég elska að baka með mínum stelpum og ég á svo góðar minningar úr eldhúsinu með ömmu og mömmu, þess vegna veit ég að þessar stundir í eldhúsinu sem geta stundum verið kaótískar skilja þó eftir ljúfar minningar, segir Eva Laufey.

Eva segist sækja innblástur að uppskriftum út um allt og hún elski að fara í ný bakarí og smakka eitthvað nýtt.

„Sérstaklega ef ég fer til útlanda, sumir leita uppi ákveðnar búðir á meðan ég reyni að stoppa í flestum bakaríum. Mér finnst líka mjög gaman að prófa mig áfram með gamlar og góðar uppskriftir sem mamma og amma notuðu mikið.“

Klárar jólagjafir í nóvember


Aðspurð segist Eva elska aðventuna og vera yfirleitt byrjuð snemma að skreyta og hlusta á jólalög.

„Hægt og rólega byrja ég svo að baka jólakökur. Ég reyni alltaf að klára jólagjafir í nóvember og þarf þess vegna ekkert að spá í því í desember og nýt þess frekar að baka meira og njóta aðventunnar með fjölskyldu og vinum.“

Eva segist elska að baka með stelpunum sínum.

Það er alltaf í nægu að snúast hjá Evu Laufeyju en hún lýsir sér sem „Excel-konu“ og „to do lista-fíkli“.

„Ég er að reyna að hemja mig í þessum listum en ég verð eiginlega að hafa gott skipulag því annars myndi ég bara gleyma hlutum.

Ég fæ að gera alls konar skemmtilega hluti í vinnunni og einnig utan vinnu og vinnan er áhugamálið mitt og þess vegna næ ég að sinna þessum verkefnum, því mér finnst þetta brjálæðislega skemmtilegt,“ segir Eva sem býr á Akranesi og segist nýta tímann sem fer í akstur fram og til baka í skipulag.

Oreo-bomba


Magn: 3 x 20 cm form

Það er stundum alls ekki nóg að baka einfalda súkkulaðiköku, hún þarf stundum eitthvað auka og þá kemur Oreo til bjargar eins og svo oft. Þessi uppskrift og kaka er sannkölluð bomba og þið verðið ekki svikin.


Botnarnir

 • 400 g sykur
 • 220 g hveiti
 • 120 g kakó
 • 2 tsk. matarsódi
 • 1 tsk. lyftiduft
 • 1 tsk. salt
 • 3 egg
 • 2,5 dl súrmjólk
 • 2,5 dl heitt soðið vatn
 • 2 dl ljós bragðlítil olía
 • 1 tsk. vanilludropar
 1. Forhitið ofninn í 180°C (blástur).
 2. Sigtið þurrefnin saman í skál (sykur, hveiti, kakó, matarsóda, lyftiduft og salt).
 3. Bætið eggjum, súrmjólk, soðnu vatni, olíu og vanilludropum saman við og þeytið áfram.
 4. Skiptið deiginu jafnt á milli forma og bakið við 180°C í 25 mínútur.
 5. Kælið botnana mjög vel.

Oreo rjómaostakremið

 • 700 g flórsykur
 • 500 g smjör
 • 200 g rjómaostur
 • 100 g Oreo-kex og meira fyrir skraut
 • 1 tsk. vanilludropar
 1. Þeytið saman rjómaosti og smjöri og bætið svo flórsykrinum smám saman við.
 2. Bætið vanilludropum út í og þeytið áfram í nokkrar mínútur.
 3. Myljið kexið í matvinnsluvél og bætið saman við.
 4. Sprautið kreminu á milli botnanna og þekið kökuna með kreminu.
 5. Kælið kökuna mjög vel áður en þið hellið súkkulaðikreminu yfir. Kremið verður að vera stíft.

Súkkulaðikremið

 • 100 g súkkulaði
 • 1 dl rjómi
 1. Hitið rjóma að suðu, saxið súkkulaði og hellið rjómanum yfir.
 2. Leyfið súkkulaðirjómanum að standa í smá stund og hrærið aðeins upp í.
 3. Hellið varlega yfir kökuna og skreytið gjarnan með ferskum jarðarberjum og Oreo-kex

Sörur

Sörur eru ómissandi í desember og þær eru í sérstaklega miklu uppáhaldi hjá mér og minni fjölskyldu. Það er lítið mál að baka sörur en það er smá dúllerí og því tilvalið að virkja fjölskyldumeðlimi eða bjóða vinum heim og baka saman – þær stundir geta verið ósköp indælar.

Sörurnar

 • 4 eggjahvítur
 • 230 g möndlur
 • 230 g flórsykur
 • Salt á hnífsoddi
 1. Forhitið ofninn í 180°C (undir- og yfirhita).
 2. Hakkið möndlurnar í matvinnsluvél.
 3. Stífþeytið eggjahvíturnar.
 4. Blandið möndlunum, flórsykrinum og saltinu varlega saman við
  eggjahvíturnar með sleikju.
 5. Mótið kökurnar með teskeið og setjið á pappírsklædda
  ofnplötu. Bakið í 10–12 mínútur.

Kremið

 • 4 eggjarauður
 • 1 dl vatn
 • 130 g sykur
 • 300 g smjör, við stofuhita
 • 3 msk. kakó
 • 1 tsk. vanilludropar
 • 1 msk. sterkt uppáhellt kaffi
 1. Þeytið eggjarauðurnar þar til léttar og ljósar.
 2. Hitið vatn og sykur saman í potti þar til sykurinn bráðnar og verður að
  sírópi en það tekur nokkrar mínútur.
 3. Hellið sírópinu saman við eggjarauðurnar i mjórri bunu og haldið áfram að þeyta.
 4. Skerið smjörið í teninga og bætið út í.
 5. Bætið kakó, vanillu og kaffi út í kremið.
 6. Þeytið í svolitla stund eða þar til kremið verður silkimjúkt. Það er
  ágætt að smakka kremið til á þessu stigi.
 7. Gott er að sprauta kreminu á kökurnar með sprautupoka eða nota
  teskeiðar til þess að smyrja kreminu á þær. Það er algjört smekksatriði hversu mikið af kremi fer á kökurnar.
 8. Kælið kökurnar mjög vel, helst í frysti áður en kökurnar eru hjúpaðar með súkkulaði.

Hjúpurinn

300 g súkkulaði t.d. suðusúkkulaði

 1. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði. Dýfið kremhlutanum á sörunum ofan í súkkulaðið.
 2. Gott er að geyma kökurnar í frysti en takið þær út með smá fyrirvara áður en þið berið þær fram.