Fyrirtækið Kipp er nýtt af nálinni en að því standa fimm skólabræður úr Kvennaskólanum, þeir Einar Steinn Kristjánsson, Tómas Sigurðsson, Ólafur Tryggvi Egilsson, Ólafur Friðrik Briem og Jonathan Jakub Otuoma. Þeir framleiða handunnar lyklakippur sem búnar eru til úr endurnýttum málmum.

„Við kynntumst flestir í grunnskóla og erum búnir að þekkjast í mörg ár,“ segir Jonathan Jakub Otuoma hjá Kipp. „Á þriðja ári í menntaskóla ákváðum við að fara í valáfangann frumkvöðlafræði þar sem við stofnuðum fyrirtækið okkar.“

Áður en lyklakippurnar urðu fyrir valinu veltu félagarnir nokkrum öðrum möguleikum fyrir sér. „Við vorum nokkrar vikur að ákveða hvað við vildum gera. Fyrstu hugmyndirnar voru að gera „tie dye“-buxur eða vítamínbættan brjóstsykur en við vorum ekki nógu sáttir við það. Að lokum ákváðum við að gera lyklakippur sem myndu festast við eitthvað,“ segir Jonathan, en kippurnar festast við segulplötur. „Við hugsuðum að það væri þægilegt fyrir fólk að kippa lyklunum með sér á leiðinni út og svo stuðlar segulplatan að því að þeir séu alltaf settir á sama stað svo þeir týnist ekki.“

Hafa ekki mikið unnið með málmsmíði

Jonathan segir að málmsmíði sé ekki eitthvað sem strákarnir hafi mikið unnið með til þessa. „Þetta er í fyrsta skipti sem við gerum eitthvað svona,“ segir hann. „Við fengum að nota aðstöðuna í Blikksmiðjunni Borg og í járnsmiðjunni Galdrastáli til að móta kippurnar, og erum rosalega þakklátir fyrir að hafa fengið tækifæri til þess.“

Þótt þeir hafi ekki unnið við verkefni af þessum toga áður segir Jonath­an að þeim félögunum hafi gengið vel. „Við vorum duglegir að skipta á milli okkar verkum og erum svo góðir vinir að við erum fljótir að leysa úr ósætti sem kemur stundum upp,“ segir hann. „Græjurnar sem við notuðum voru mjög einfaldar svo okkur hefur blessunarlega ekki tekist að slasa okkur ennþá.“

Þá er gætt að því að notast við endurunnið efni og fengu Kipp gefins málm frá endurvinnslustöð Hringrásar og umbúðirnar utan um kippurnar eru gerðar úr endurunnum pappakössum.

Jonathan hvetur fólk til að kynna sér kippurnar betur á Facebook-síðu Kipp þar sem þeir taki einnig við pöntunum í gegnum spjallið.