Sorphirða á pappír og plasti hjá Reykjavíkurborg er um einni og hálfri viku á eftir áætlun. Tæming grenndargáma á höfuðborgarsvæðinu er sömuleiðis nokkrum dögum á eftir áætlun. Færð, veður og mikið magn rusls um hátíðarnar spilar þar stórt hlutverk. Unnið er aukalega alla daga og alla laugardaga við að tæma í Reykjavík.

Tveir bilaðir bílar hjá Terra

Guðmundur Tryggvi Ólafsson, rekstrarstjóri endurvinnslustöðva Sorpu, segir að hann eigi von á því að tæming grenndargáma á höfuðborgarsvæðinu verði komin í lag fyrir helgi en tveir bílar Terra, sem sjá um tæmingu, biluðu en verða að öllum líkindum báðir komnir í lag á morgun.

„Okkur þykir leitt að þetta sé ekki í lagi en við erum búin að leggja mikið á okkur að koma þessu í lag,“

Hann segir að þegar sorphirða borgarinnar sé á eftir áætlun sé reynt að tæma grenndargámana oftar en að það takist ekki alltaf. Þar getur færð og veður spilað stórt hlutverk en erfitt er til dæmis að tæma gámana í miklum vindi.

Ruslið hefur víða safnast saman en gæta verður að aðgengi. Annars er erfitt fyrir sorphirðufólk að tæma.
Fréttablaðið/Ernir

Taka aukarusl ef snyrtilega er gengið frá

Sorphirða er mikið rædd í hverfagrúppum borgarinnar á Facebook og má þar oft sjá myndir af sorpi sem hlaðið hefur verið ofan á tunnur sem eru fullar. Valur segir það vandmeðfarið að tæma við þessar aðstæður.

„Það er sorphirðusamþykkt þar sem segir skýrt að við tæmum ílátin og að aðgengi að þeim þurfi að vera í lagi og það er á ábyrgð íbúa að tryggja það,“ segir Valur.

Hann segir að sem dæmi þegar íbúar hlaði rusli ofan á tunnur þá tæmi þeir ekki tunnur nema það hrynji rusl út um allt.

„Það er ekki í raun á okkar ábyrg að taka það. Við tínum ekki upp úr gólfinu en hafandi sagt það þá gerum við það samt stundum. Það er ekki reglan en það sem við höfum bent fólki á við þessar óviðráðanlegu aðstæður er að ganga snyrtilega frá aukarusli og þá höfum við verið liðleg að taka það. Sérstaklega í kringum jólin því við vitum að jólaruslið er svo mikið. Það hefur alltaf verið venjan,“ segir Valur.

Mikið rusl og mikill snjór

Hann segir aðstæðurnar sem sköpuðust í desember hafa verið erfiðar. Bæði hafi snjóað mikið og svo sé rusl mikið í kringum hátíðarnar.

„Það gekk allt á hraða snigilsins og það sem við gerðum núna var að leggja áherslu á að hirða almenna ruslið því það er verra þegar það safnast saman. Það verður lykt og það sækja rottur og flugur í það. Við höfum því lagt áherslu á að halda því á áætlun og okkur hefur tekist það með því að vinna aukalega,“ segir Valur en sorphirðufólk vann á bæði aðfangadag og gamlársdag, sem voru báðir laugardagar.

„Við unnum líka síðasta laugardag og vinnum þann næsta, auk þess sem við erum búin að bæta klukkustund við vaktina á virkum dögum. Við erum að keyra eins mikið á starfsfólk og hægt er. Það er ekki hægt að keyra endalaust á mannskapinn,“ segir Valur.

Hann beinir því til almennings að huga vel að aðgengi að sorpi því ef sorphirðufólk kemst ekki að ruslatunnum þá tæma þau ekki, og þótt að aðgengið sé svo bætt, þá þýðir það ekki að þau komi aftur. Það sé verið að vinna eftir áætlun.

„Þetta eru svo margir staðir að það er ekki hægt að halda utan um það mikla magn sem við skiljum eftir vegna lélegs aðgengis. Og þá erum við að tala um einkalóðir, við erum ekki að tala um vegna snjómoksturs borgarinnar,“ segir Valur og að oft snúist þetta um snjó í tröppum eða fyrir geymslum.

Valur segir að ekki sé endalaust hægt að ganga á starfsfólk og að álagið sé mikið.
Fréttablaðið/Aðsend