Notre Dame dóm­kirkjan í París er loks til­búin fyrir endur­byggingu eftir að vinnu hefur lokið við að skorða upp bygginguna rúmum tveimur árum eftir að hún varð eldri að bráð.

Kirkjan, sem var upp­runa­lega byggð á 12. öldinni, stór­skemmdist í brunanum sem eyði­lagði háa­loft hennar og hrundi turn­spíra frá 19. öld í hvelfinguna að neðan.

Emmanuel Macron, Frakk­lands­for­seti, hefur heitið því að hægt verði að endur­opna kirkjuna árið 2024, fimm árum eftir brunann, en þá munu Ólympíu­leikarnir verða haldnir í París. Sóknar­prestur í Notre Dame hefur þó sagt að lík­lega muni við­gerðirnar taka 15-20 ár að fullu.

Þurftu að tryggja öryggi

Lögð hefur verið á­hersla á síðustu tveimur árum á að tryggja að öruggt sé að hefja endur­byggingu á kirkjunni, sem fól meðal annars í sér að fjar­lægja fjöru­tíu þúsund vinnu­palla sem voru við kirkjuna og skemmdust í brunanum.

Stefnt er að því að koma Notre Dame aftur í fyrra horft og verður hin 96 metra háa turn­spíra sem eyði­lagðist í brunanum endur­byggð í upp­haf­legri mynd frá miðri 19. öld með sér­völdu timbri

Þá hefur þegar verið hafist handa við að endur­reisa hið fræga stór­orgel þar sem 8.000 pípur voru teknar í sundur og sendar til orgel­smiða um allt Frakk­land.

Stefnt er að því að vinna við endur­bygginguna muni hefjast á komandi mánuðum eftir að út­boð hefur verið haldið til að velja þau fyrir­tæki sem munu sjá um verkið.