Stoðdeild ríkislögreglustjóra hefur unnið eftir vísbendingum sem hafa borist um dvalarstað egypsku fjölskyldunnar sem flytja átti af landi brott á miðvikudag en var farin í felur þegar lögregla mætti á dvalarstað hennar. Þetta kemur fram í svari Jóhanns K. Jóhannssonar upplýsingafulltrúa hjá ríkislögreglustjóra, við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Að sögn Jóhanns hefur ekki verið tekin ákvörðun um að lýsa eftir fjölskyldunni að svo stöddu, en starfsmenn deildarinnar hafa verið í samskiptum við lögmann fjölskyldunnar vegna málsins.

Síðastliðinn miðvikudag bárust fréttir um að egypska fjölskyldan væri horfin. Lögreglan greindi frá því að hún hafi ekki verið á fyrirfram ákveðnum stað þar sem stoðdeild lögreglunnar hugðist fylgja þeim úr landi.

„Ekki er vitað um dvalarstað fólksins. Málið er áfram á borði stoðdeildar ríkislögreglustjóra. Ekki er verða veittar frekari upplýsingar um málið að svo stöddu,“ sagði í tilkynningu stoðdeild ríkislögreglustjóra.

Magnús Davíð Norð­dahl, lögmaður Kehdr fjölskyldunnar, sagðist heldur ekki vita hvar fjölskyldan væri niðurkoman.Sagði hann hvarf fjölskyldunnar ekki flækja málin. „Þetta breytir engu efnislega um málið. Það verður látið reyna á þetta mál fyrir dómi þar sem krafist verður ógildingar á þeim úrskurðum sem þegar hafa fallið hjá kærunefnd og þeim úrskurðum sem enn eru væntanlegir,“ segir Magnús.

Sagðist hann vona að fjölskyldan væri örugg sama hvar hún væri niðurkomin.

Pólitískt fjaðrafok vegna málsins

Málefni fjölskyldunnar hafa valdið töluverðu pólitísku fjaðrafoki en Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingkona Vinstri grænna sagði skilið við flokkinn sinn í gær vegna málsins og fylgdu tvær þungavigtarkonur í flokknum fordæmi hennar síðdegis í gær.