„Hugsjónin er að búa til samfélag ólíkra einstaklinga,“ segir Simon Joscha Flender, arkitekt og verkefnastjóri hjá Kjarnasamfélagi Reykjavíkur. Hann er einn þeirra sem hyggst byggja fyrsta kjarnasamfélagið á Íslandi.

„Samfélagið byggir á því að allir sem þar búa hafa sína eigin íbúð eða hús en deila ýmsum öðrum svæðum og hlutum,“ segir Simon og bætir við að kjarnasamfélög séu algeng víða um heim. „Til dæmis í Danmörku, Þýskalandi og í Bretlandi.“

Hann segir ýmsa kosti felast í því að búa í kjarnasamfélagi og þau sé hægt að byggja upp með þarfir íbúanna að leiðarljósi. „Nú erum við á þeim stað að við erum að kynna hugmyndina fyrir fólki og mögulegum íbúum,“ segir Simon en Kjarnasamfélag Reykjavíkur hélt á seinni hluta síðasta árs þrjá streymisviðburði þar sem verkefnið var kynnt. „Auðvitað hefðum við viljað hitta fólk og kynna hugmyndina en við unnum með það sem við höfðum, vonandi getum við hist á næsta ári,“ segir Simon.

„Þarfir fólks eru svo ólíkar en með því að byggja upp svona samfélag frá grunni þá er hægt að huga að þessum þörfum,“ segir Simon og tekur dæmi um sameiginleg rými. „Svona búum við í meiri nálægð við nágranna okkar og deilum til dæmis garði eða veislusal,“ bætir hann við.

Simon Joscha Flender, arkitekt og verkefnastjóri hjá Kjarnasamfélagi Íslands
fréttablaðið/sigtryggur ari

„Svo eru ýmsir hlutir sem samfélagið getur átt saman, líkt og sláttuvél eða verkfæri, það getur skilað sér vel til umhverfisins,“ segir Simon sem sjálfan hefur lengi dreymt um að eiga hjólaskúr. „Það er eitthvað sem ég þarf ekki en gæti kannski eignast í kjarnasamfélagi.“

Simon segir hægt að fara ólíkar leiðir við byggingu kjarnasamfélaga en hann rannsakaði fyrirbærið þegar hann vann að meistararannsókn sinni í arkitektúr við Háskólann í Lundi. „Það er bæði hægt að byggja hús eða íbúðir frá grunni sem að henta íbúunum og svo er hægt að byggja upp samfélög þar sem þarf ekki að byrja frá grunni,“ segir hann.

Þá sé einnig hægt að fara ólíkar leiðir í fjármögnun samfélaganna. „Fyrirkomulagið getur verið þannig að hver og einni eigi sína íbúð eða sitt hús eða að búið sé til félag um samfélagið, það fer allt eftir því hvað hentar.“

Aðspurður hvenær hann telji fyrsta kjarnasamfélag Íslands verða íbúðarhæft segir Simon raunhæft að það verði á næstu tveimur til þremur árum. „Við viljum auðvitað að þetta verði að veruleika sem fyrst og bindum vonir við það,“ segir Simon að lokum.