„Ég náttúrulega bara minni á orð Guterres sem hvetur aðila til að fara í vopnahlé strax og ég tek eindregið undir hans orð því fórnarlömbin í þessu eru almennir borgarar og börn þar á meðal,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður VG í morgun eftir ríkisstjórnarfund.

Þar vísar Katrín í orð Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sem hvatti Ísraela og Palestínumenn til að láta af beitingu vopna og semja undireins um vopnahlé.

Líkt og í yfirlýsingu þingflokks VG í morgun minnti Katrín á samþykkt Alþing­is frá 2011 um viður­kenn­ingu á sjálf­stæði og full­veldi Palestínu og þar með rétt þeirra til eigin ríkis.

Málefni fyrir botni miðjarðarhafs voru ekki sérstaklega rædd á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.

„En okkar afstaða er skýr, þarna á að vinna að tveggja ríkja lausn“, sagði Katrín og er því samhljóma orðum Guðlaus Þór Þórðarsonar utanríkisráðherra í morgun. „Við erum ekki með lausn á þessu frekar en aðrir en vopnuð átök eru ekki lausnin,“ bætir hún við.

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs sendi í morgun frá sér tilkynningu þar sem framferði Ísraelsmanna er fordæmt.