Karlmaður hlaut í síðustu viku sextíu daga fangelsisdóm í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir líkamsárás sem átti sér stað í október árið 2020. Sjálfur sagðist hann hafa framið árásina vegna vinkonu sinnar sem brotaþolinn hafi misnotað kynferðislega, sem og vegna látins manns

Manninum var gefið að sök að hafa veist að öðrum manni með því að grípa í hár hans að aftanverðu, slegið hann með krepptum hnefa í höfuðið og annars staðar um líkamann. Það varð til þess að brotaþolinn féll í jörðina og þá á maðurinn að hafa sparkað í hann og kýlt á meðan hann lá niðri. 

Í ákærunni segir að brotaþolinn hafi fyrir vikið fengið mar aftan á hnakka, opið sár á höfði, brot á vanga-og kjálkabeinum, sár í munnholi og á vör, brot á tönn, mar á brjóstkassa og þvagteppu.

Vinkonan hefði beðið um hjálp

Árásarmaðurinn sagði fyrir dómi og í skýrslutöku sína hlið málsins og sagði að um væri að ræða „endi sögu“. 

Hann vildi meina að brotaþolinn hefði verið fluttur inn til vinkonu sinnar og sýnt henni yfirgang og áreitt kynferðislega. Því hafi hún hringt í sig grátandi og beðið um hjálp.

Maðurinn viðurkenndi að hann hefði verið ofboðslega reiður og ekki með sjálfum sér er hann kom á vettvang og komið manninum úr húsinu. Þrátt fyrir það neitaði hann stórum hluta ákærunnar og sagði árás sína ekki eins grófa og þar var lýst.

„Aldrei séð annan eins óþverraksap“

Ekki nóg með það, heldur sagði hann málið eiga sér forsögu. Tveimur mánuðum fyrir árásina hefðu þeir hist í íbúð manns sem brotaþolinn og félagi hans hefðu tekið yfir og verið þar í að minnst kosti mánuð. 

Eigandi íbúðarinnar væri farlama og rúmliggjandi og mennirnir tveir haldið honum í neyslu. Síðan fóru félagarnir og skildu manninn eftir og hann lést fjórum dögum síðar, líklega vegna fráhvarfa. 

Árásarmaðurinn sagðist „aldrei séð annan eins óþverraskap og brotaþoli sýndi“ manninum.

Dómari taldi ákveðna þætti ákærunnar sannaða og dæmdi manninn fyrir þá. 

Maðurinn á talsverðan sakaferill að baki, en líkt og áður segir hlaut hann sextíu daga dóm. Þá er honum gert að greiða brotaþolanum 700 þúsund krónur.