Fyrsti fundur Ferðafélags Íslands var haldinn í gærkvöldi frá því að fyrrverandi forseti félagsins, Anna Dóra Sæþórsdóttir, sagði af sér og um leið sagði sig úr félaginu vegna stjórnarhátta félagsins.

Afgerandi stuðningur var við stjórn FÍ á fundinum en Kristín I. Pálsdóttir var meðal þeirra sem mætti á fund FÍ í gærkvöldi en vantrauststillaga sem hún hafði lagt fram var ekki borin upp á fundinum.

„Samsetning fundarins var þannig. Vinir stjórnar voru í meirihluta á fundinum,“ skrifar Kristín meðal annars í færslu á Facebook-síðu sinni í gær.

Tillaga Kristínar um vantraust á hendur stjórnarinnar var ekki borin upp á fundinum. Kristín segir tillögu Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur, stjórnsýslufræðings, um að stjórnin segði af sér hafa verið fellda.

„Það var heldur ekki dynjandi lófatak við mínum málflutningi. Ég bar upp spurningu um hvort að samskiptavandi framkvæmdastjórans og fv. forseta hafi byrjað þegar hún neitaði að samþykkja að hann fengi greiddan 13 mánuðinn í Covid-álag en hann er með um tvær milljónir í mánaðarlaun. Ég fékk skammir fyrir að vera með svona dónalegar spurningar,“ segir Kristín jafnframt í færslu sinni.

Kristín segir fundinn ekki hafa verið góðan og að félagið eigi við mörg vandamál að stríða þó að þau hafi lifað fundinn af. „Það kæmi mér á óvart ef ekki verður farið í gagngerar breytingar í félaginu,“ segir Kristín og bætir við að hún sé sátt við sitt framlag og nú fari hún að finna sér nýjar gönguvinkonur í öðru félagi.

Færslu Kristínar má lesa í heild sinni hér að neðan.