Nokkur óvissa er um hve miklum usla mjög djúp lægð veldur á landinu í kvöld og næstu nótt.
Birta Líf Kristinsdóttir veðurfræðingur segir að hvassast verði suðvestanlands og á Breiðafirði. Mesta úrkoman suðaustanlands og á Austfjörðum. „Hún er mikið ólíkindatól þessi lægð,“ segir hún.
Veðurstofan hefur heldur minni áhyggjur af lægðinni en í fyrradag en of snemmt er að spá fyrir um áhrif hennar hér á landi. Áætlaður ferill lægðarinnar virtist í gærkvöld þannig að versta veðrið gæti orðið í hafi vestan landsins.
„Við höfum ívið minni áhyggjur af vindstyrknum en við erum samt að tala um gular viðvaranir,“ segir Birta Líf.
„Við búumst við allt að 25 metra meðalvindi á sekúndu og jafnvel 28 metrum, til dæmis á Reykjanesi. Við gætum fengið yfir 40 metra á sekúndu í hviðum þannig að það er full ástæða til að kippa grillunum inn og fara varlega.“