Ásýnd Norðursjávar mun gjörbreytast á komandi áratugum eftir yfirlýsingu Evrópusambandsins og fjögurra aðildarríkja þess um stóraukna vindorkunýtingu.

Vindmyllurnar í Norðursjó framleiða í dag 16 gígavött af rafmagni en talan mun hækka í 150 árið 2050. Það dugar fyrir 200 milljónir evrópskra heimili.

Ástæðan fyrir því að þessu verkefni hefur verið flýtt er vitaskuld stríðið í Úkraínu, en stefna Evrópusambandsins er að verða algerlega óháð Rússlandi um orku. Þegar hafa stór skref verið stigin í þessa átt en vindorkugarðarnir í Norðursjó eru risastökk.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, mætti til Esbjerg í Danmörku þar sem yfirlýsingin var undirrituð. Danmörk er eitt af þeim löndum sem taka þátt í verkefninu, ásamt Þýskalandi, Hollandi og Belgíu. Þjóðarleiðtogarnir Mette Fredriksen, Olaf Scholz, Mark Rutte og Alexander De Croo voru einnig mættir.

„Þeim mun meira sem Evrópa verður háð innbyrðis verður hún sjálfstæðari frá Rússlandi,“ sagði von der Leyen. Auk þess að reisa vindmyllurnar í Norðursjó verður miklu fjármagni veitt til þess að styrkja dreifikerfi álfunnar.

Þær vindmyllur sem eru í Norðursjónum eru flestar vestan við Es­bjerg, á vestanverðu Jótlandi og norðan við Frísland í Norður-Hollandi. Ýmis orkufyrirtæki reka þessar myllur, svo sem Vattenfall í Danmörku, EWE og DONG Energy í Þýskalandi og Eneco í Hollandi. Einnig eru vindmyllugarðar við strönd Bretlands og einn nálægt Haugasundi í Noregi.

Lengi hefur verið rætt um að auka verulega við vindorkunýtingu í Norðursjó. Aðstæður eru þar einkar góðar, grunnsævi og vindar nokkuð stöðugir. Kostnaðurinn spilar hins vegar stóra rullu, enda ekki ódýrt að koma fyrir möstrum á hafi úti og leiða rafmagn þaðan í land.

Annar stór kostnaðarliður snýr að leyfismálum og þeim tíma sem það tekur að fá vindmyllur samþykktar. Ríkisstjórnir landanna fjögurra hafa nú öll samþykkt að einfalda regluverkið til muna og stytta tímann. Í dag líða á bilinu sex til níu ár frá því að orkufyrirtæki sendir inn umsókn þar til vindmylla rís. Stefnan nú er að þessi tími verði ekki lengri en eitt ár.

Hvar nákvæmlega hinar nýju vindmyllur muni rísa liggur ekki nákvæmlega fyrir. En líklegt þykir að netið muni þéttast verulega út frá ströndum Jótlands og ná lengra út á hafið. Einnig hefur verið til skoðunar að fjölga vindmyllum norðan og vestan við Holland.