Abiy Ah­med, for­sætis­ráð­herra Eþíópíu, hlýtur hin virtu Nóbels­verð­laun í ár fyrir að stuðla að aukinni al­þjóð­legri sam­vinnu og friði og að binda enda á 20 ára hernaðar­á­tök milli lands síns og ná­granna­landsins Erí­treu. Norska nóbels­nefndin til­kynnti þetta í dag í Ósló.

Nóbels­nefndin hrósaði í morgun við­leitni Abiy til að ná friði og al­þjóð­legu sam­starfi, og þá sér­stak­lega fyrir af­gerandi frum­kvæði hans til að leysa landa­mæra­stríðin við Erí­treu. „Norska nóbels­nefndin telur að við­leitni Abiy Ah­med eigi skilið viður­kenningu og þurfi hvatningu,“ sagði Berit Reiss-Ander­sen, for­maður nefndarinnar.

Dag­blaðið Financial Times segir að Abiy hafi síðustu ár látið blaða­menn og pólitíska fanga lausa og fagnað út­lægum and­ófs­mönnum sem sneru aftur til Eþíópíu. Jens Stol­ten­berg, fram­kvæmda­stjóri NATO og fyrr­verandi for­sætis­ráð­herra Noregs, hafi óskað Abiy til hamingju. „Þú hefur sýnt fram á að með þolin­mæði, hug­rekki og sann­færingu er friður mögu­legur,“ sagði hann.

Þegar Abiy bárust tíðindin frá Ósló sagði hann í Twitter­færslu að Eþíópíu­menn fögnuðu verð­launa­veitingunni sem væri til vitnis um að bar­átta hans fyrir endur­bótum og það að semja frið við Erí­treu­menn hefði vakið at­hygli.

Eþíópía er land­lukt í Austur-Afríku. Það er næst­fjöl­mennasta ríki Afríku með tæp­lega 102 milljónir íbúa og meira en tíu sinnum stærra en Ís­land að flatar­máli. Efna­hags­fram­farir í Eþíópíu hafa verið miklar síðustu ár og vel­megun aukist.

Ríkið er sam­bands­lýð­veldi níu þjóð­ríkja og meira en 70 þjóð­flokka sem eru mjög ó­líkir inn­byrðis. Or­ó­móar, Amharar og Tígrar eru meira en þrír fjórðu lands­manna. Undan­farin ár hafa tíð átök milli ætt­bálka Eþíópíu ógnað stöðug­leika í landinu og mann­réttinda­brot færist í aukana.

Friðar­sér­fræðingur fær friðar­verð­laun

Abiy Ah­med Ali er 43 ára gamall af þjóð­flokki Or­ó­móa sem eru um 40 prósent Eþíópu­manna. Hann er þrettánda barn föður síns, sem í fjöl­kvæni átti fjórar eigin­konur, og sjötta barn móður sinnar. Sem barn fékk hann nafnið Abi­yot sem þýðir „bylting“. Hann nam tölvu­verk­fræði og lauk árið 2017 doktors­prófi frá Há­skólanum í Addis Ababa í friðar- og öryggis­fræðum þar sem hann lagði á­herslu á þátt fé­lagsauðs í lausn deilu­mála þjóða Eþíópíu.

Abiy tók við em­bætti for­sætis­ráð­herra í apríl á síðasta ári. Í ríkinu hefur verið ein­ræði síðustu 25 árin og tölu­verð fé­lags­leg ólga. Hann lofaði í upp­hafi miklum um­bótum sem ætlað var að veita frið heima og er­lendis.

Eþíópía náði í fyrra sögu­legum friðar­samningi við ná­granna­landið Erí­treu en ríkin höfðu verið í hernaðar­legri patt­stöðu í nærri tvo ára­tugi frá mann­skæðu landa­mæra­stríði á árunum 1998 til 2000. Miklar væntingar er um að sam­komu­lagið, sem ber yfir­skriftina „Sam­eigin­leg yfir­lýsing um frið og vin­áttu“, dragi úr straumi flótta­fólks frá löndunum til annarra ríkja Afríku og Evrópu.

Fram­kvæmda­stjóri Sam­einuðu þjóðanna, Antonio Guter­res, sem var við undir­ritun friðar­sam­komu­lagsins milli Eþíópíu og Erí­treu í fyrra, sagði í gær að „vindar vonar blási sí­fellt sterkar í Afríku“ og for­sætis­ráð­herra Eþíópíu og friðar­verð­launa­hafi Nóbels sé ein aðal­á­stæðan fyrir því.

Abiy Ahmed Ali forsætisráðherra Eþíópíu og Isaias Afwerki forseti Eritreu draga sameiginlega fána að hún í sendiráði Eritreu í höfuðborginni Addis Ababa, í Eþíópíu, þann 16. júlí 2018.

Abiy unnið ótrúleg afrek

Unnur Orradóttir Ramette sendiherra

Unnur Orra­dóttir Ramette sem hefur að­setur í Kampala í Úganda og er sendi­herra Ís­lands í Eþíópíu, segir að for­sætis­ráð­herrann sé vel að þessu kominn. „Hann hefur unnið ó­trú­leg af­rek við erfiðar að­stæður. Hann hefur tekið djarfar á­kvarðanir, sleppt tugum þúsunda pólitískra fanga úr haldi og heimilað endur­komu upp­reisnar­manna sem til­heyra mis­munandi þjóð­ernis­brotum. Það hefur ekki verið hættu­laus veg­ferð,“ segir Unnur. „Stjórn­völd eru heldur ekkert að reyna að breiða yfir stað­reyndir og upp­lýsa um fjölda látinna í skæru­á­rásum. Þetta er lítið dæmi um at­riði sem hefði verið ó­hugsandi áður.“

Unnur segir að mikið um­rót hafi verið í Eþíópíu. Abiy hafi farið af stað með á­ætlun um pólitíska og efna­hags­lega endur­reisn landsins sem felur m.a. í sér einka­væðingu ríkis­stofnana. Það sé gríðar­stórt verk­efni enda er landið tæp­lega undir­búið undir slíkt að neinu leyti.

Síðan þá hafi a.m.k. 1.200 manns fallið í á­tökum og 1,2 milljónir manna séu á flótta innan­lands. „Það er þó ekkert nýtt að átök geisi á milli ó­líkra hópa í þessu ríf­lega 100 milljón manna landi. En í ljósi sögunnar, þá finnst sumum hann vera veikur leið­togi, að hann ráði ekki við að­stæður og muni ekki sitja mikið lengur. Að­ferðir hans eru gjör­ó­líkar því sem fólk á að venjast.“

Ó­trú­legar breytingar á stjórn­mála­um­ræðu Eþíópíu

Magnús Ásbjörnsson Reykjavík Geothermal

Magnús Ás­björns­son er einn af stofn­endum Reykja­vík Geot­herma­l, sem hefur unnið að þróun þróun jarð­hita­verk­efna í Eþíópíu síðast­liðin níu ár og fylgst grannt með gangi mála þar. Að upp­byggingu jarð­varma­verk­efnanna í Eþíópíu vinna nú tæp­lega 100 manns, þar á meðal tugir starfs­manna fé­lagsins og annarra ís­lenskra fyrir­tækja.

Magnús segir að Eþíópía sé ekki að­eins hraðast vaxandi hag­kerfi í Afríku eins og það hefur verið síðast­liðin 15 ár, heldur líka það sem tekur hröðustu fram­förum í lýð­ræðis­átt. Fyrir utan friðar­samningana og það sem áður hefur verið nefnt nefnir Magnús að á­hrif Abiy megi finna á fleiri sviðum, til dæmis í jafn­réttis- og um­hverfis­málum.

„Helmingur af ríkis­stjórn hans er skipaður konum, og hann beitti sér fyrir því að ný­kjörinn for­seti landsins er kona. Hann hefur líka beitt sér í um­hverfis­málum: sem dæmi plöntuðu Eþíópíu­búar 350 milljón trjám á einum degi í júlí á þessu ári, og rík á­hersla hefur verið lögð á hreina orku­fram­leiðslu, meðal annars jarð­hita­verk­efni okkar. Síðast en ekki síst hefur hann viður­kennt mis­tök og beðist af­sökunar á gjörðum for­vera hans í ríkis­stjórn Eþíópíu, sér­stak­lega í mann­réttinda­málum,“ segir Magnús.

Magnús segir að þær breytingar sem hafi orðið á and­rúms­loftinu og í pólitískri um­ræðu í Eþíópíu séu ó­trú­legar á ekki lengri tíma. Þar sem fólk var áður fyrr hrætt við að tjá sig um það sem miður fór í landinu er nú kröftug sam­fé­lags­um­ræða í krafti ný­fengins mál­frelsis. En pólitísk and­staða við Abiy hefur á köflum snúist út í of­beldi.

„Þegar svona miklar breytingar eru gerðar á stuttum tíma fer ekki hjá því að það kemur fram and­staða frá fyrri valda­stéttum. Til­raunir hafa verið gerðar til að ráða Abiy af lífi, og ég var síðast í þessari viku spurður hvort ég héldi að hann myndi lifa lengi. Það sem gerir mig glaðastan er að þetta á vonandi eftir að styrkja stöðu Abiy í að ná fram þeim stór­tæku og já­kvæðu breytingum sem hann er að reyna að ná fram í Eþíópíu og um alla álfuna,“ segir Magnús og bætir við að hann voni að friðar­verð­launin eigi eftir að hvetja Abiy til frekari dáða og auka til­trú þjóðarinnar á að friður í landinu sé raun­hæft mark­mið.

Berit Reiss-Andersen formaður Norska nóbelsnefndarinnar tilkynnti í dag í Ósló að Abiy Ahmed, forsætisráðherra Eþíópíu, hlyti hin virtu verðlaun í ár.

Nóbels­verð­launin veitt form­lega 10. desember

Á­ætlað er að Abiy taki form­lega við friðar­verð­laununum í Ósló þann 10. desember. Verð­launa­féð nemur níu milljónum sænskra króna, eða um 113 milljónum ís­lenskra króna. Jafn­vel þó að friðar­verð­launin séu veitt í Noregi er upp­hæðin til­nefnd í sænskum krónum.

Abiy er sá hundraðasti í röðinni til að hljóta friðar­verð­launin. Alls voru 219 ein­staklingar og 85 sam­tök til­nefnd til verð­launanna í ár.