ÁTVR hefur ákveðið staðsetningu fyrir nýja Vínbúð sem kemur í stað þeirrar sem er nú í Austurstræti í miðbæ Reykjavíkur.

„Við höfum farið yfir innsend tilboð og niðurstaða ÁTVR er að aðeins eitt tilboð uppfylli skilyrði hvað staðsetningu varðar miðað við forsendur auglýsingarinnar. Það er húsnæðið að Fiskislóð 10,“ segir í svari Sigrúnar Óskar Sigurðardóttur, aðstoðarforstjóra ÁTVR, við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Hún segir að Ríkiskaupum hafi verið falið að hafa samband við bjóðendur og kynna niðurstöðuna.

„Næsta skref er að fara í viðræður við eigendur húsnæðisins á Fiskislóð 10 og sjá hvort samningar nást. Það verður ekki fyrr en niðurstaða liggur fyrir úr þeim viðræðum að ákvörðun verður tekin um opnun nýrrar Vínbúðar og þá hugsanlega lokun á Vínbúðinni í Austurstræti,“ segir í svari Sigrúnar.

Kannaðar voru þrjár aðrar staðsetningar, Hallgerðargata 19-23, Hringbraut 119/121 og á Hallveigarstíg 1.