Landsréttur staðfesti í dag fjögurra ára dóm sem karlmaður á þrítugsaldri hlaut í Héraðsdómi Reykjaness árið 2019. Hann var dæmdur fyrir nauðgun og brot gegn blygðunarsemi ungrar konu en hann villti á sér heimildir í tuttugu mánaði og kúgaði konuna til kynmaka með öðrum mönnum og til að senda sér kynferðislegt myndefni. Þá nauðgaði hann sjálfur konunni á hótelherbergi í Kópavogi.
Maðurinn var 22 til 24 ára þegar brotin áttu sér stað og konan 20 til 22 ára. Hann beitti blekkingum á samfélagsmiðlum þar sem hann þóttist vera maður sem konan þekkti og fékk hann konuna þannig til að eiga í kynferðislegum samskiptum við sig og braut á henni.
Samskiptin fóru öll fram í gegnum samskiptaforritið Snapchat en hann stofnaði þar reikning með nafni mannsins sem konan þekkti.
Hann fékk konuna til að hitta sig í tvígang á hóteli þar sem hann fór fram á að hún yrði bundin og með bundið fyrir augun meðan þau höfðu samræði. Konan taldi sig vera hitta vin sinn sem hún þekkti en ekki ákærða.

Hótaði að birta myndir af henni ef hún hlýddi ekki
Samskipti þeirra leiddust síðan út í það að maðurinn fór að stjórna henni með hótunum og neyddi hana til að stunda kynferðismök með öðrum mönnum og neyddi hana til að taka þau upp og senda sér myndir, myndbönd eða hljóðupptökum af því.
Hann hélt konunni í gíslingu með hótunum um að birta af henni myndir ef hún hlýddi honum ekki.
Konan leitaði til Bjarkarhlíðar, miðstöðvar þolenda ofbeldis árið 2017 vegna kynferðisofbeldis sem hún taldi sig hafa orðið af hálfu mannsins sem hún taldi sig vera tala við og hitt á hótelinu í Kópavogi.
Við rannsókn málsins komst hins vegar í ljós að hún hafi verið að tala við annan mann en ákærða sem hafði villt á sér heimildir. Maðurinn sem ákærði þóttist vera var ómeðvitaður um allt sem hafði farið fram.
Einn dómari vildi vægari refsingu og lægri miskabætur
Sem fyrr segir var maðurinn dæmdur í fjögurra ára fangelsi í Landsrétti í dag. Ásetningur hans var sagður einarður og brot hans alvarleg og óvenjuleg. Hann var einnig dæmdur til að greiða konunni 1,8 milljónir króna í miskabætur.
Hildur Bríem settur landsréttardómari skilaði sératkvæði í málinu en hún taldi að dæma ætti manninn til vægari refsingar og til greiðslu lægri miskabóta.