Lands­réttur stað­festi í dag fjögurra ára dóm sem karlmaður á þrítugsaldri hlaut í Héraðs­dómi Reykja­ness árið 2019. Hann var dæmdur fyrir nauðgun og brot gegn blygðunar­semi ungrar konu en hann villti á sér heimildir í tuttugu mánaði og kúgaði konuna til kyn­maka með öðrum mönnum og til að senda sér kyn­ferðis­legt mynd­efni. Þá nauðgaði hann sjálfur konunni á hótel­her­bergi í Kópa­vogi.

Maðurinn var 22 til 24 ára þegar brotin áttu sér stað og konan 20 til 22 ára. Hann beitti blekkingum á sam­fé­lags­miðlum þar sem hann þóttist vera maður sem konan þekkti og fékk hann konuna þannig til að eiga í kyn­ferðis­legum sam­skiptum við sig og braut á henni.

Sam­skiptin fóru öll fram í gegnum samskiptaforritið Snapchat en hann stofnaði þar reikning með nafni mannsins sem konan þekkti.

Hann fékk konuna til að hitta sig í tví­gang á hóteli þar sem hann fór fram á að hún yrði bundin og með bundið fyrir augun meðan þau höfðu sam­ræði. Konan taldi sig vera hitta vin sinn sem hún þekkti en ekki ákærða.

Dómur Landsréttar var kveðinn upp í dag.

Hótaði að birta myndir af henni ef hún hlýddi ekki

Sam­skipti þeirra leiddust síðan út í það að maðurinn fór að stjórna henni með hótunum og neyddi hana til að stunda kyn­ferðis­mök með öðrum mönnum og neyddi hana til að taka þau upp og senda sér myndir, mynd­bönd eða hljóð­upp­tökum af því.

Hann hélt konunni í gíslingu með hótunum um að birta af henni myndir ef hún hlýddi honum ekki.

Konan leitaði til Bjarkar­hlíðar, mið­stöðvar þol­enda of­beldis árið 2017 vegna kyn­ferðis­of­beldis sem hún taldi sig hafa orðið af hálfu mannsins sem hún taldi sig vera tala við og hitt á hótelinu í Kópa­vogi.

Við rann­sókn málsins komst hins vegar í ljós að hún hafi verið að tala við annan mann en ákærða sem hafði villt á sér heimildir. Maðurinn sem ákærði þóttist vera var ó­með­vitaður um allt sem hafði farið fram.

Einn dómari vildi vægari refsingu og lægri miskabætur

Sem fyrr segir var maðurinn dæmdur í fjögurra ára fangelsi í Lands­rétti í dag. Á­setningur hans var sagður ein­arður og brot hans al­var­leg og ó­venju­leg. Hann var einnig dæmdur til að greiða konunni 1,8 milljónir króna í miska­bætur.

Hildur Bríem settur lands­réttar­dómari skilaði sér­at­kvæði í málinu en hún taldi að dæma ætti manninn til vægari refsingar og til greiðslu lægri miska­bóta.