Íslenski villikötturinn mun loksins fá lagalega stöðu samkvæmt drögum að nýrri reglugerð Kristjáns Þórs Júlíussonar, landbúnaðarráðherra.

Villikettir hafa fylgt Íslendingum frá landnámi en ólíkt skóggangsmönnum forðum daga er villikötturinn enn þá réttdræpur.

Reglugerðin var unnin eftir samráð við Matvælastofnun og samtökin Villiketti sem fagna því að heimilislausar kisur fái loks úrbót sinna mála.

„Við erum búin að berjast fyrir þessu í fjögur ár,“ segir Arndís Björg Sigurgeirsdóttir, formaður Villikatta. „Það var mjög stór áfangi þegar dýraverndunarlögin voru sett árið 2014, en það vantaði skilgreininguna á villiköttum sem eru fyrrum heimilisdýr. Staða þeirra hefur verið mjög bágborin í gegnum tíðina og við vitum að þeir eru enn þá skotnir sums staðar á landsbyggðinni.“

Samkvæmt reglugerðinni mega félagasamtök sem stuðla að velferð villikatta láta sneiða lítinn hluta annars eyrans af eftir geldingu. Að því gefnu að aðgerðin sé framkvæmd hjá dýralækni með svæfingu.

Arndís segir þetta mjög mikilvægt í ljósi þess verklags sem samtökin vinna eftir, TNR (trap-neuter-return), sem myndi þýðast sem fanga-gelda-sleppa. „Við komum oft inn í stór kattasamfélög, þar sem eru á bilinu 50 til 100 kettir, allir ógeldir og hver undan öðrum og því svipaðir á litinn,“ segir Arndís.

„Við getum ekki séð hverjir eru geldir og hver ekki nema það sé búið að sneiða af eyranu.“ Þetta segir Arndís að geti líka gagnast fólki sem finni kött og sé að velta því fyrir sér hvort hann sé týndur.

Að sögn Arndísar er aðferðin vel þekkt erlendis, hafi byrjað í Boston í Bandaríkjunum árið 1964. Síðan hafi þetta borist til Evrópu og víðar. Hún sé notuð til að fækka villiköttum á mannúðlegan hátt og halda stofnum í hæfilegri stærð.

„Þetta er hörð lífsbarátta, sérstaklega fyrir litla kettlinga sem lenda í mávum og f leiru. Það er aðeins um 20 prósent líkur á að þeir lifi,“ útskýrir Arndís.

Nefnir Arndís fyrsta verkefni félagsins, sem stofnað var árið 2014, úti á Granda þar sem náðst hafi að gelda 26 ketti. Högninn Pungsi, sem feðraði flesta kettlingana, slapp þó og er enn þá á stjái ógeldur.

„Villikettir munu aldrei hverfa alveg og fólk vill hafa þá,“ segir Arndís sem reiknar með því að meira en 2000 kisur lifi villtar á Íslandi. Flestar í nálægð við hafnir og þar sem þær komast í æti. „Þeir halda líka rottum í burtu, því rottur forðast lyktina af kattahlandi.“