Átaki sem ætlað var að stemma stigu við lausagöngu villikatta í Fljótsdalshéraði og hófst 18. febrúar á að ljúka í dag. Sonja Rut Rögnvaldsdóttir, talskona Villikatta á Austurlandi, gerir alvarlegar athugasemdir við hvernig staðið var að málum og veltir fyrir sér hvort nokkurt tilefni hafi yfirleitt verið til þess að ráðast í átakið.

„Átakinu á að ljúka í dag samkvæmt tilkynningu sveitarfélagsins og enn hafa engir ómerktir kettir verið auglýstir. Við veltum enn fyrir okkur hvernig standi á því að þeir hafi engum ómerktum köttum náð, miðað við yfirlýsingar bæjarvalda ætti að vera allt morandi í þeim,“ segir Sonja Rut við Fréttablaðið.

Sjá einnig: Lífi Kisu bjargað með 21.300 króna höfuðlausn

Sonja Rut segir að þótt allt útlit sé fyrir að heimturnar verði engar hafi gengið á ýmsu þessar vikur sem átakið hefur verið í gangi. „Klukkan hálf tólf að kvöldi föstudagsins 1. mars gengum við fram á opið fellibúr merkt Fljótsdalshéraði á iðnaðarsvæðinu á Egilsstöðum og ákváðum að vakta það og kanna hvort þess væri vitjað reglulega,“ segir Sonja Rut.

Dauðagildra í frosti

„Samkvæmt reglugerð um velferð gæludýra ber ábyrgðarmanni fellibúrs að vitja þess á að minnsta kosti þriggja tíma fresti þegar hitastig er undir 5 gráðum.“

„Það var frost þetta kvöld og skemmst frá því að segja að búrsins var ekki vitjað alla nóttina og ekki allan morguninn eftir. Það gerðist ekkert fyrr en um klukkan 14 þann daginn, eftir að ég bað dýraeftirlitsmanninn vinsamlegast um að koma og taka það.“

Sjá einnig: Reiðin kraumar vegna boðaðrar útrýmingar villikatta í Héraði

Sonja Rut segir því ljóst að búrið hafi verið eftirlitslaust í að minnsta kosti fjórtán og hálfa klukkustund. „Og það er alls ekki víst að köttur hefði lifað af svo langan tíma innilokaður því búrið er mjög lítið, 66 sentimetra langt og 25 sentimetrar á breidd og hæð. Það er því ómögulegt fyrir kött að halda á sér hita þarna inni til lengri tíma. Við tókum þetta að sjálfsögðu upp á myndband og sýndum frá á Snapchat-rás Villikatta.“

Sonja Rut segir að félagar í Villiköttum hafi aftur gengið fram á opið fellibúr á miðvikudagskvöld. „Í þetta sinn var búrið ekki með límmiðum með merki Fljótsdalshéraðs líkt og búrið sem fannst á föstudag. Búrið var samt af nákvæmlega sömu gerð, á nákvæmlega sama stað og með nákvæmlega sömu beitu, sem má teljast mögnuð tilviljun.

Sjá einnig: Villikettir á Austurlandi fá gálgafrest

Við fylgdumst reglulega með þessu búri fram á næsta kvöld. Það stóð opið í hvert sinn sem komið var að því þannig að það var ekkert annað í stöðunni en að vakta það aftur og kanna á ný hvort þriggja tíma reglunni væri framfylgt,“ segir Sonja Rut.

Engin svör

„Við byrjuðum þá vakt klukkan 19:30 á fimmtudagskvöldinu og klukkan 23 ákváðum að loka því yfir nóttina þegar enginn hafði komið að vitja þess enda stormur að skella á.

Við tókum þetta líka upp á myndband sem við deildum á Snapchat. Þetta búr stendur þarna ennþá, opið dag og nótt og enginn sem virðist vitja þess með því millibili sem reglugerðin kveður á um.

Sjá einnig: Slá skjaldborg um villta ketti og safna undirskriftum

Okkur finnst þetta mjög einkennilegt allt saman og illa að þessu staðið. Við fáum engin svör við tölvupóstum okkar til sveitarfélagsins lengur en vonum þó að þeir séu í það minnsta lesnir,“ segir Sonja Rut sem einnig vonar að fellibúrin verði fjarlægð í dagslok.