Eins og Fréttablaðið greindi frá í síðustu viku hafa harðar deilur staðið í Fljótsdalshéraði um fyrirhugað átak í föngun og jafnvel í framhaldinu förgun villikatta á svæðinu.

Átakið hefst í dag en þegar það var boðað voru eigendur katta hvattir til þess að halda þeim innandyra að kvöld og næturlagi frá og með deginum í dag. Sveitarfélagið hafði áður hafnað samstarfi við Dýraverndurnarfélagið Villikettir Austurlandi en ný tillaga félagsins að samstarfi virðist falla í frjóan jarðveg þannig að reynt verður að finna fönguðum köttum varanlegt skjól.

Sonja Rut Rögnvaldsdóttir, forsvarsmaður Villikatta á Austurlandi, segir í samtali við Fréttablaðið að félaginu hafi í dag borist tilkynning frá Birni Ingimarssyni bæjarstjóra sem glæði vonir þeirra um að mannúðlega verði staði að átakinu.“

Sjá einnig: Reiðin kraumar vegna boðaðrar útrýmingar villikatta í Héraði

„Á þessu bréfi sést að fulltrúar Dýraverndarsamband Íslands og Dýrahjálpar Íslands einnig beitt þau þrýstingi en miðað við þessa tilfinningu stendur ekki til að fresta átakinu en við höldum í vonina um að kettirnir verði færðir í okkar umsjá,“ segir Sonja.

Tillagan sem Villikettir sendu sveitarfélaginu um helgina gengur út á að „ómerktum köttum sem fangaðir verða á þessu tímabili verði ráðstafað til félagsins sem nýs eiganda,“ með vísan til laga um velferð dýra og að örmerki þeirra verði skráð á kennitölu félagsins.

„Verða kettirnir vistaðir á lögbýli utan þéttbýliskjarna Fljótsdalshéraðs og þar með undanskildir reglugerð um skráningarskyldu og takmörkun á kattahaldi sem getið er á um í. 4.gr. samþykktar 912/2016 um kattahald og gæludýrahald annarra en hunda í sex sveitarfélögum á starfssvæði heilbrigðisnefndar Austurlandssvæðis. Verða köttunum fundin ný heimili og örmerkisskráningar þeirra fluttar yfir á nýja eigendur, í þeim sveitarfélögum sem þeir búa.“

Sveitarfélagið vonast eftir farsælli lausn

Í bréfinu sem Sonu Rut barst í dag og Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, kvittar undir kemur fram að erindi Villikatta hafi verið móttekið og vísað til umhverfis- og framkvæmdanefndar sveitarfélagsins til umfjöllunar.

„Ég vil hvetja ykkur til að fylgjast með upplýsingum á heimasíðu sveitarfélagsins næstu daga því þar munu verða birtar upplýsingar um fangaða ketti með það að markmiði m.a. að hægt verði að finna þeim varanlegt skjól til framtíðar,“ skrifar Björn og segist hafa trú á að finna megi farsæla lausn á málinu og að „alla vega er til þess vilji af sveitarfélagsins hálfu.“

Sonja Rut bindur því vonir við að félagið fái að „ættleiða“ villikettina, ef svo má að orði komast, í trausti þess þess að tillaga þeirra verði afgreidd fljótt og að niðurstaðan verði jákvæð. „Þetta virðist þó þurfa að fara í gegnum umhverfis-og framkvæmdarnefnd og höfum við ekki enn fengið staðfest hvort við þurfum að borga lausnargjald fyrir kettina.“