Hjörð villi­galta um­kringdi konu sem var ný­komin úr mat­vöru­verslun nærri Rómar­borg á Ítalíu og rændu mat­vörum hennar. At­vikið náðist á mynd­band sem horfa má á neðst í fréttinni.

Kemur fram í um­fjöllun Guar­dian um málið að mynd­bandið hafi vakið upp um­ræður að nýju í landinu um stærð villi­galta­stofnsins þar í landi. At­vikið átti sér stað í bænum Le Rug­he á fimmtu­daginn var.

Fjórir full­orðnir geltir og tveir grísir sjást elta konuna, sem hörfar sam­stundis undan og reynir án árangurs að halda þeim í skefjum. Konan sést sleppa mat­vörum sínum sem villigeltirnir stelast sam­stundis í.

„Ég trúi ekki mínum eigin augum,“ heyrist í þeim sem tók mynd­bandið upp. Grísirnir borðuðu matinn strax á bíla­planinu en hinir geltirnir tóku það sem hægt var og hlupu í burtu.

Villigeltir og til­vist þeirra hefur verið mikið þrætu­epli á Ítalíu undan­farin ár. Ítalskir bændur hafa í ára­raðir mót­mælt því hve af­skipta­laus stjórn­völd hafa verið í garð dýra­tegundarinnar. Talið er að villigeltir beri á­byrgð á um tíu þúsund bíl­slysum á ári hverju í landinu.

Síðast í októ­ber skipaði borgar­stjórinn í Róm að rann­sakað yrði hvers vegna hópur villi­galta var skotinn til bana af lög­reglunni við leik­völl í borginni, ná­lægt Vatíkaninu. Dýra­verndunar­sam­tök mót­mæltu að­gerð lög­reglu harð­lega við til­efnið. Talið er að um tvær milljónir villi­galta sé að finna í landinu.