Verið er að koma á fót sérstöku Villidýrateymi fimm stofnana til þess að taka við öllum leðurblökum, slöngum, þvottabjörnum, broddgöltum og öðrum framandi kvikindum sem almenningur kynni að finna. Nokkur losarabragur hefur verið á þessu hingað til en málið er mikilvægt til þess að halda erlendum pestum í skefjum.

„Það getur verið smithætta af þessum dýrum og mikilvægt að fólk viti hvert það getur snúið sér,“ segir Auður Lilja Arnþórsdóttir, sérgreinadýralæknir smitsjúkdóma og faraldsfræði hjá Matvælastofnun, sem er ein þeirra stofnana sem koma að Villidýrateyminu. Hinar eru Umhverfisstofnun, Tilraunastöðin að Keldum, Náttúrufræðistofnun og Hafró. Sjúkdómarnir geta verið ýmiss konar sem geta endað bæði í mannfólki og búfénaði.

Fólk þarf að fara varlega finni það leðurblöku eða jafnvel þvottabjörn.

Samkvæmt nýrri áætlun er búið að lista allt ferlið frá því að framandi villidýr finnst á förnum vegi þar til það er aflífað, rannsakað og hræinu eytt eða þá varðveitt. Hér er ekki um flækingsfugla að ræða, sem koma mýmargir á hverju ári, né fiska, skordýr eða hvítabirni sem sérstök áætlun gildir um.

Algengustu kvikindin sem hér finnast og Villidýrateymið þarf að hafa afskipti af eru leðurblökur, kannski ein á ári. Grunur er um að leðurblaka hafi einmitt verið kveikjan að Covid-19. Það er hins vegar ekki það sem Villidýrateymið er mest að hugsa um. „Mikilvægast er að hundaæði komi ekki til landsins,“ segir Auður en sá válegi sjúkdómur hefur aldrei fundist hér á landi. „Fólk þarf að fara mjög varlega ef það finnur leðurblöku. Þær koma oft til landsins með gámum.“ Auður segir að sem betur fer hafi ekki enn komið upp alvarlegt tilfelli hvað varðar smit af framandi villidýri.

Flest dýr sem sniglast um á gámasvæðum í erlendum höfnum, skriðdýr og lítil spendýr, eru líkleg til þess að komast óséð til landsins. Oft eru það einmitt sjómenn á fraktskipum sem finna þessi dýr og hafa ekki alltaf haft vitneskju um hvert á að skila þeim.

Finni einhver á höfuðborgarsvæðinu leðurblöku eða annað framandi dýr á sá hinn sami að tilkynna það til Matvælastofnunar, í síma 530-4800. Á landsbyggðinni skal hafa samband við héraðsdýralækna, í síma 894-0240 í Suðvesturumdæmi, 858-0886 í norðvestri, 858-0860 í norðaustri og 839-8300 í suðri.