„Villi er í dag 3 barna fjölskyldufaðir sem lifir bara flottu lífi og á bara skilið fokkings breik. Hann heimsækir ekki Ísland lengur því það er kallað á eftir honum hvert sem hann fer,“ segir Baldvin E. Sigurðsson, náinn vinur Vilhjálms Arnar Hallgrímssonar.
Það muna eflaust margir Íslendingar eftir Vilhjálmi sem tók þátt í vinsælum sjónvarpsþætti, Bandinu hans Bubba, hér á landi árið 2008. Er Vilhjálms, eða Villa eins og hann er alla jafnan kallaður, helst minnst vegna myndbands af því þegar honum vafðist tunga um tönn þegar hann svaraði hvernig honum hefði liðið á sviðinu eftir flutning á lagi.
Tveimur árum eftir að þættirnir voru sýndir var samanklipptu myndbroti af þessu hlaðið upp á YouTube þar sem horft hefur verið á það rúmlega 330 þúsund sinnum.
Verður fyrir aðkasti
Villi er búsettur í Noregi og kemur eins og áður segir sjaldan til Íslands af þeirri ástæðu að hann verður fyrir aðkasti.
Baldvin skrifaði færslu í Facebook-hópinn Fjölmiðlanördar fyrr í dag þar sem hann gagnrýndi harðlega reglulega upprifjun á myndbandinu. Síðast var fjallað um atvikið í þættinum Nostalgía sem sýndur var á Stöð 2 í gærkvöldi og svo var skrifuð frétt upp úr þættinum sem birtist á vef Vísis í morgun.
Það var Haukur Viðar Alfreðsson blaðamaður sem hlóð myndbandinu upp á sínum tíma og ræddi hann málið í viðtali í þættinum í gærkvöldi. Í viðtalinu minntist hann einnig á að hann hefði skrifað afsökunarbeiðni til Villa sem birtist í pistli í Fréttablaðinu árið 2015.
„En ég fékk engin viðbrögð við þeirri afsökunarbeiðni, skiljanlega kannski.“
„Ár eftir ár, aftur og aftur“
Sem fyrr segir skrifar Baldvin nokkuð harðorða færslu um þá meðferð sem vinur hans hefur mátt þola á undanförnum árum.
„Árið 2008 tók einn af mínum nánustu vinum þátt í þættinum Bandið hans Bubba á Stöð 2. Villi hefur aldrei búið á Íslandi í meira en 2 ár í einu. Talar þar af leiðandi Íslensku eftir því. Þegar hann mismælti sig í beinni útsendingu tóku fáir eftir því, það var ekki fyrr en að atvikið var sett á youtube 2 árum seinna þar sem þetta einelti hófst,“ segir Baldvin en í samtali við Fréttablaðið en kvaðst vilja láta færsluna duga til að tjá hug sinn um málið.
Í færslunni segir Baldvin:
„Nú verða blaðamenn heldur fýldir og leiðinlegir þegar það er skotið á íslenskukunnáttu þeirra en svo virðist að það breyti engu þegar það á að gera grín af þeim sem minna mega sín. Ár eftir ár, aftur og aftur,“ bætir hann við en reglulega hefur verið fjallað um myndbandið – og önnur sambærileg – á netmiðlum hér á landi.
„Nú skal ég bara fullyrða það að hann Villi hefur ekkert gaman af þessu og ég trúi ekki öðru en að við getum tekið höndum saman og mögulega skammast okkar aðeins fyrir þetta 10 ára einelti sem eflaust margir hérna inni, þar á meðal ég höfum tekið þátt í,“ segir hann áður en hann beinir orðum sínum að Hauki Viðari:
Kallað á eftir honum
„Haukur ef þú ert hérna, það er voða töff að biðjast afsökunar en sjáðu nú sóma þinn í því að fjarlægja þetta myndband. Gefum honum Villa uppreisn æru, því hann á hana svo sannarlega skilið. Villi er í dag 3 barna fjölskyldufaðir sem lifir bara flottu lífi og á bara skilið fokkings breik. Hann heimsækir ekki Ísland lengur því það er kallað á eftir honum hvert sem hann fer,“ segir hann og beinir svo orðum sínum að Stefáni Árna Pálssyni, blaðamanni Vísis, sem skrifaði frétt upp úr Nostalgíuþættinum sem sýndur var í gærkvöldi.
„Stefán Árni Pálsson þú mátt líka skammast þín eða allavegana hafa sómakennd til að heyra í manninum fyrst áður en þú ákveður að rifja upp hans versta móment sem hefur ekki gert síðustu 10 árin auðveld. Getum við þetta saman?“

Haukur Viðar svarar gagnrýni Baldvins í Fjölmiðlanördum. „Ég tók þátt í þessu innslagi vegna þess að mér skildist að búið væri að læna upp viðtali við Villa líka. Það fannst mér vísbending um að hann væri bara sáttur við þetta og mér fannst það hljóma eins og áhugavert innslag. Svona „Villi tjáir sig loksins“-eitthvað,“ segir hann og bætir við að hugsanlega hafi hann misskilið þáttastjórnendur eða það átt eftir að tala við hann.
„Ég gruna þau allavega ekki um neina illkvittni. Allavega, ég hefði annars látið það eiga sig. Lítið nýtt í þessu ef hann er ekki með.“
Þá segist Haukur ekki geta tekið myndbandið af YouTube vegna þess að það er á svokölluðum „legacy account“ – það eru reikningar á YouTube sem eru stofnaðir fyrir einhverja ákveðna dagsetningu.
„Ef eigendur slíkra reikninga muna ekki lykilorðin sín er lítið hægt að gera. Mér skilst þó að hægt sé að reporta vídeó á slíkum reikningum og það sé stundum tekið tillit til þess,“ segir Haukur sem kveðst ekki hafa nokkra ánægju af því að taka þátt í einhverju sem sé öðrum til ama. Haukur hefur nú tilkynnt myndbandið á YouTube sem óviðeigandi. Haukur segir:
„En sjáum hvort þetta skili einhverju. Því fleiri, því líklegra.“