Ég hafði aldrei komið til Ís­lands! En fyrir ári síðan var ég í Fær­eyjum. Ég ferðast mjög mikið og hef komið til Noregs og Sví­þjóðar en aldrei hingað. Í Fær­eyjum hugsaði ég að þær hlytu að vera alveg eins og Ís­land, en það kom á daginn að það er alls ekki þannig! Það er stór­kost­legur munur,“ segir hann og hlær.

Ást­fanginn af Ís­landi

„Þetta er til­tölu­lega ein­falt með Ís­land. Ég hef farið hringinn í kringum hnöttinn tvisvar, að mestu leyti mun sunnar en hér, vegna þess að ég er Skandinavíu­maður og við leitum í hlýjuna. En ég verð að viður­kenna, og hérna er ég að vera al­gjör­lega hrein­skilinn, að þetta er fal­legasta land sem ég hef séð á ævinni. Ég er al­gjör­lega dol­fallinn.“

Ég hef komið til Noregs og í fyrsta sinn sem ég var þar fannst mér það stór­kost­legt. Því ég ferðast alltaf bara suður. Og svo í Fær­eyjum hugsaði ég að þetta gæti ekki orðið fal­legra, en hér er ég. Ég er al­gjör­lega ást­fanginn,“ segir hann. „Við erum ekki með neitt af þessu magnaða lands­lagi í Dan­mörku.“

Thomas fer með hlut­verk mótor­hjóla­manns í Ó­færð 3 og segir að sam­starfið með Baltasar Kormáki, leik­stjóra og fram­leiðanda, hafi gengið vonum framar. Að­spurður segist hann þó varast að segja nokkuð til um á­gæti þess efnis sem hann komi fram í þar til eftir að það er komið út, en er þó full­viss um að Ís­lendingar verði ekki illa sviknir.

„Ég sá fyrstu seríuna og mér fannst hún virki­lega góð. Ég hef ekki séð númer tvö en þessi fyrsta var alveg frá­bær. Svo það var magnað að geta komið hingað og hlut­verkið hentaði mér vel, því í frí­tíma mínum keyri ég mikið af mótor­hjólum. Ég hlakkaði til hvers dags, því alltaf fékk ég að prófa nýtt hjól og það var al­gjör­lega klikkað að fá að keyra um á Siglu­firði og á þjóð­veginum á hjólinu,“ segir Thomas. Hann segir veðrið hafa verið mis­gott en það hafi ekki haft á­hrif á tökur.

Frá­bært að fá tæki­færi í Ó­færð 3

Thomas var eins og áður segir hér í fimm vikur við tökur. Hann kemur svo hingað aftur síðar í nóvember til að klára. „Maður er auð­vitað orðinn vanur þessu brasi. Á síðasta ári var ég til dæmis í Finn­landi og hafði aldrei komið þangað áður. Þannig að ég er vanur þessu, en kærastan mín er kannski ekki eins vön þessu,“ segir hann og hlær.

„Ég hafði aldrei unnið með Baltasar áður, en það var frá­bært. Ég hafði hitt hann nokkrum sinnum á kvik­mynda­há­tíðum. Ég hitti hann í Frakk­landi til dæmis í Cannes, og á Celebration Fest í kringum Jag­ten,“ segir Thomas, sem fór með eitt hlut­verkanna í þeirri vin­sælu mynd. Það hafi ekki reynst erfið á­kvörðun að slá til og leika í Ó­færð 3.

„Ég hafði aldrei komið hingað en heyrt mikið um landið. Svo snerist þetta um mótor­hjól og ég elska mótor­hjól, svo hvernig gat ég sagt nei?“ segir hann. „Ég hef líka verið að vinna rosa­lega mikið síðasta árið. Svo kemur þessi vírus upp og ég fæ smá frí, en þegar þetta boð kom á­kvað ég bara að slá til,“ segir Thomas. Hann segist að­spurður vel geta hugsað sér að leika meira í ís­lensku efni.

Larsen í sinni fyrstu heimsókn á Íslandi.

Leikarar að­skildir með lita­kóða

Thomas viður­kennir að það hafi verið skrítið að taka upp þátt á tímum heims­far­aldurs. „Þetta er mjög skrítið, því það þarf að að­skilja okkur eftir lita­kóðuðum svæðum og við þurfum auð­vitað að hafa grímur öllum stundum, nema þegar við tökum upp, þá gengur það ekki,“ segir hann léttur í bragði. Við tíu manna sam­komu­bann stjórn­valda þurfi að hugsa hlutina upp á nýtt, sem auð­veldara reynist við tökur utan­dyra.

Var alveg jafn­létt að komast í karakter, þrátt fyrir CO­VID? „Já!“ segir hann. „Í sjón­varps­þættinum er auð­vitað enginn heims­far­aldur svo þar látum við bara eins og ekkert hafi í skorist. En heims­far­aldurinn hefur auð­vitað haft á­hrif á verk­efna­stöðuna hjá mér, og mikil bið er á flestum verk­efnum,“ segir Thomas. Gaman sé þó að geta glatt fólk með þátt­töku í ein­hverju eins og sjón­varps­þáttum.

Nor­rænar kvik­myndir í vexti

„Þessi sería verður mjög góð, svo fólk mun hafa eitt­hvað til að horfa á, á þessum skrítnu tímum,“ segir hann. Hann segir Ís­lendinga geta verið stolta af Ó­færð, serían sýni að ís­lensk kvik­mynda­gerð sé í vexti. Thomas segir að svo virðist vera sem kvik­mynda­gerð sé í vexti á Norður­löndum al­mennt og bendir á að nýjasta kvik­mynd sín, Druk, þar sem hann fer með eitt af aðal­hlut­verkunum á­samt Mads Mikkel­sen, hafi fengið prýðis­við­tökur á heims­vísu.

Myndinni er leik­stýrt af Thomas Win­ter­berg, hinum sama og leik­stýrði þeim Thomas og Mads í Jag­ten árið 2010. Thomas segir að þeir hafi verið vinir um ára­bil.

„Þetta er rosa­lega góð mynd. Ég hef unnið með Thomas Win­ter­berg í þrjá­tíu ár. Festen og Jag­ten voru stórar, en þessi virðist ætla að verða enn stærri og það á tíma heims­far­aldurs og það gleður mig mikið,“ segir hann. Druk fjallar um hóp mennta­skóla­kennara sem at­huga hvort það hafi teljandi á­hrif á hamingju sína að hafa 0,5% á­fengi í blóðinu öllum stundum.

„Við kynntumst fyrir þrjá­tíu árum þegar Thomas var á fjórða ári í leik­stjórnar­skóla Kaup­manna­hafnar. Ég var að klára leik­listar­skóla og var ekki með neina vinnu.

Ég setti á fót lítið leik­rit með fé­laga mínum, sem hét Lorte og það var al­gjör­lega rosa­legt. Það var of­beldi og kyn­líf í í þessu litla, svæsna leik­riti. Tom sá það og við gerðum saman litla mynd sem hét „One Last Round,“ segir Thomas. Hann segir frum­sýningu myndarinnar hafa mótað feril sinn síðan.

Leitar sömu til­finningar

„Við fundum það bara á á­horf­endum í kvik­mynda­skólanum á frum­sýningunni að þeim fannst þetta rosa­lega góð mynd. Ég gleymi aldrei þessari til­finningu og fyrir okkur var þetta magnað, því þetta var fyrsta myndin okkar. Og ég reyni alltaf að upp­lifa þessa til­finningu aftur við frum­sýningu hverrar myndar en hef aldrei upp­lifað hana aftur,“ segir Thomas.

„Druk var að vinna til verð­launa á Spáni og þetta er mögnuð mynd, en fyrsta myndin, það var stærsta stundin. Ég mun aldrei upp­lifa slíkt aftur, enda vorum við svo ungir og áttuðum okkur þá á því hvers við vorum megnugir,“ segir hann léttur í lund.

Thomas segist aldrei hafa orðið þreyttur á leik­listinni. Hann hafi upp­lifað róstu­sama æsku og reynt margt fyrir sér, meðal annars starfað sem bakari, gler­gerðar­maður, smiður, unnið í verk­smiðju og starfað fyrir danska herinn. „Og ég gerði það sama í eitt og hálft ár. Vann hjá tré­smiðum og í tíu ár áður en ég fór að leika prófaði ég allt og er líka lærður gler­smiður,“ segir hann. Hann segir leik­listina hafa verið á­huga­mál frekar en vinnu, en hann kláraði leik­listar­skólann 27 ára.

„Svo ég gerði margt en frá því ég var ellefu ára tók ég þátt í á­huga­leik­húsi, en ég vissi bara ekki að ég gæti unnið fyrir mér með því.“ Hann segir virði starfsins mun meira virði en peninga. „Maður leggur auð­vitað mikið á sig í vinnunni, en þegar maður sér við­brögðin og upp­lifir til­finningar fólks, þá er það eitt­hvað sem verður ekki metið til fjár,“ segir Thomas.