Oli­vier Poi­vre d‘Arvor, sendi­herra Frakk­lands gagn­vart heim­skautunum og hafinu, var gestur Arctic Circ­le ráð­stefnunnar í síðustu viku. d‘Arvor var skipaður í em­bættið af Emmanuel Macron, Frakk­lands­for­seta, árið 2020 og tók við því af Ségolène Royal sem var vikið úr em­bætti vegna pólitískra deilna við Macron um líf­eyris­mál.

„Hr. Macron bað mig um að bæta mál­efnum hafsins við em­bættið, en fyrir okkur er það nokkuð þýðingar­mikið af því við erum með næst­stærstu efna­hags­lög­sögu heimsins á eftir Banda­ríkjunum. Það þýðir heim­skautin að við­bættu hafinu sem er 80 prósent af yfir­borði heimsins. Sem er nokkuð stórt heims­veldi, eða eins konar sýndar­heims­veldi, þetta er meiri­háttar heims­mál­efni,“ segir hann.

d‘Arvor hélt erindi á alls­herjar­þingi Arctic Circ­le síðast­liðinn fimmtu­dag þar sem hann ræddi mark­mið Frakka á norður­slóðum. Hann vinnur nú að fyrstu frönsku stefnu­mótuninni í mál­efnum Norður- og Suður­skautsins sem hann mun kynna fyrir Macron á næstu mánuðum. Hann segir á­huga Frakka á norður­slóðum fyrst og fremst vera vísinda­legs eðlis og í­trekar mikil­vægi lofts­lags­vísinda fyrir stefnu­mótunina.

„Aðal­at­riðið fyrir mig eru vísindi, vísindi, vísindi, af því maður getur of­nýtt hafið, maður getur líka verið með iðnað á Norður­slóðum en við þurfum vísinda­menn til að segja okkur af eða á. Maður getur talað um lofts­lags­breytingar en ef vísinda­menn segja okkur ekki ná­kvæm­lega að hvaða leyti þessar lofts­lags­breytingar verða þá endur­tekur maður bara klisjur. Það er greini­legur skortur á vísinda­legri þekkingu hvað varðar Norður- og Suður­heim­skautinu og jafn­vel enn meira hvað varðar hafið,“ segir d‘Arvor og bætir við að einungis lítil hluti sjávar­botns hafi verið kort­lagður.

„Þess vegna ættu lönd að vinna saman, ekki undir ein­hverjum sér­stökum fána, hvorki franska fánanum né ís­lenska, heldur í sam­vinnu. Þekking er fyrir alla, ekki bara fyrir á­kveðið land. Þetta hljómar ein­falt en er það alls ekki því fyrir mörg lönd þá snúast vísindi um pólitík, þau eru eins konar leyni­makk, en við Frakkar viljum breyta þessu á sam­evrópskum skala.“

d‘Arvor segir Frakka binda vonir við að slíku sam­starfi gæti svipað til starf­semi þeirra á Suður­pólnum þar sem þeir reka heils­árs rann­sóknar­stöðina Concor­dia í sam­starfi við Ítali.

d'Arvor hélt erindi á Arctic Circle sem fór fram í Hörpu í síðustu viku.
Fréttablaðið/Anton Brink

Frakk­land er ekki Norður­skauts­land

Að sögn d‘Arvor verður franska stefnu­mótunin fyrir Norður- og Suður­skautin til­búin fyrir jól. Að­spurður um hver helsti hvatinn sé fyrir Frakka að því að vinna slíka stefnu­mótun segir hann að mál­efni lofts­lags­breytinga vegi þungt en leggur á­herslu á að Frakkar ætli sér að virða full­veldi þeirra landa sem eiga aðild að Norður­skauts­ráðinu.

„Við eigum ekki opin­bera stefnu og sem Evrópu­land og með­limur í Öryggis­ráði Sam­einuðu þjóðanna ættum við að vera partur af um­ræðunni. Ég í­treka þó að við erum ekki með­limur í Norður­skauts­ráðinu og erum ekki Norður­skauts­land, það er lítið vit í því að flokka sig sem í­gildi eða nær-norður­skauts­land eins og sum lönd, til dæmis Kína, hafa gert. Þetta þarf að vera skýrt, maður þarf að full­vissa hin átta löndin (í Norður­skauts­ráðinu) að full­veldi þeirra sé ekki ógnað.“

d‘Arvor lítur svo á að Frakkar ættu að fjár­festa mun meira í heim­skauta­rann­sóknum sem og haf­rann­sóknum til að verða ekki eftir­bátar landa á borð við Þýska­lands.

„Við þyrftum senni­lega að tvö­falda það fjár­magn sem við setjum í heim­skauta­rann­sóknir. Við þurfum ný skip, við þurfum nýja rann­sóknar­stöð, hugsan­lega á Græn­landi, við þurfum meira fjár­magn í vísinda­leið­angra, við þurfum að endur­nýja stöðina okkar á Suður­skauts­landinu, það eru fjöl­mörg út­gjöld sem þarf að huga að, sem er ein á­stæða þess að hr. Macron bað mig um að gera stefnu­mótunina,“ segir hann.

Hefurðu engar á­hyggjur af því Norður­skauts­löndin, sem eru sum hver þunga­vigtar­leik­menn í heims­pólitíkinni, muni líta svo á að Frakkar séu að seilast til valda á Norður­slóðum?

„Í raun erum við þegar á­hrifa­valdur þar í ljósi þess að við erum með fast sæti í öryggis­ráðinu, við erum Evrópu­ríki, við erum með sjó­her og erum með skipa­flota í norðri, þar að auki. Ég myndi segja að undan­farin tuttugu ár hafi Frakk­land verið í á­kveðnu jafn­vægi. Ég veit ekki hvort að Kína, Rúss­landi eða Banda­ríkjunum sé jafn um­hugað um sam­lyndi, frið og jafn­vægi. En þar sem við höfum ekki mikla efna­hags­lega hags­muni á þessu svæði þá höfum við í raun enga á­stæðu til að gegna slæmu hlut­verki. Við munum hugsan­lega reyna að draga úr þeim á­tökum sem gætu komið upp, en ég tel nú samt ekki að Norður­skautið sé á­taka­mesta svæði heimsins, langt því frá. Ég held að Norður­skautið muni ekki breytast í villta vestrið.“

d‘Arvor segist hafa mun meiri á­hyggjur af á­standinu í Asíu í kringum Suður-Kína­haf og í Afríku í Gíneu­flóa. Þá segist hann binda miklar vonir við norður­slóðir og segist full­viss þess að viska og friður muni ráða ríkjum þar.

Við þyrftum senni­lega að tvö­falda það fjár­magn sem við setjum í heim­skauta­rann­sóknir. Við þurfum ný skip, við þurfum nýja rann­sóknar­stöð, hugsan­lega á Græn­landi, við þurfum meira fjár­magn í vísinda­leið­angra, við þurfum að endur­nýja stöðina okkar á Suður­skauts­landinu.

Oli­vier Poi­vre d‘Arvor í franska sendiherrabústaðnum að Skálholtsstíg.
Fréttablaðið/Ernir

Ó­hugsandi að mynda ríkis­stjórn án lofts­lags­stefnu

Á næsta ári fara fram for­seta­kosningar í Frakk­landi en d‘Arvor hefur ekki á­hyggjur af því að úr­slit þeirra muni skipta sköpum fyrir sitt em­bætti og stefnu­mótunina sem hann vinnur að. Hann segir mál­efni heim­skauta og lofts­lags­breytinga vera þver­pólitísk í Frakk­landi og telur ó­hugsandi að mynda ríkis­stjórn án um­fangs­mikillar lofts­lags­stefnu enda sé það skylda Frakka að sýna for­dæmi og upp­fylla mark­mið Parísar­sátt­málans 2015.

„Það er í raun skylda okkar að sýna for­dæmi og stundum er það erfitt, eins og með af­kol­efnis­væðingu, en við verðum að sýna for­dæmi.“

d‘Arvor segist hafa unun af því að vinna með Macron og vonast til þess að hann, eða næsti for­seti Frakk­lands, muni geta mætt á Arctic Circ­le ráð­stefnuna árið 2022. Að­spurður um hvert hlut­verk Frakk­lands á sviði lofts­lags­mála ætti að vera segir hann:

„Það er að sýna hug­rekki and­spænis al­manna­rómi, það er að sýna hug­rekki and­spænis þrýsti­hópum, það er að sýna hug­rekki and­spænis iðnaðinum, það er að biðja stór­fyrir­tæki um að minnka kol­efnis­fót­spor sitt. Við erum of á­hyggju­laus gagn­vart lofts­lags­breytingum því við í­myndum okkur alltaf að önnur lönd en við muni lenda í þeim.“

Að sögn d‘Arvor eru mál­efni lofts­lags­breytinga ofar­lega á baugi í em­bætti hans sem sendi­herra heim­skautanna og hafsins og segir hann ljóst að af­leiðingar þeirra muni ekki eins­korða sig við af­skekkt ey­lönd enda gæti stór hluti frönsku strand­lengjunnar lent undir hafi ef bráðnun Græn­lands­jökuls og ís­hellunnar á Suður­skauts­landi heldur á­fram ó­á­reitt.

„Ég veit ekki með Ís­land en fyrir Frakk­land þá gæti það orðið stór­slys. Stór hluti strand­lengjunnar okkar gæti farið undir sjó, það er hætta sem við munum þurfa að takast á við mjög fljótt,“ segir hann.