Guðmundur Andri Thorsson lýsti áhyggjum sínum af vaxtamálum í frumvarpi mennta- og menningarmálaráðherra um menntasjóð námsmanna, í óundirbúnum fyrirspurnatíma í dag. Sagði hann Samfylkinguna taka undir kröfur stúdenta um vaxtaþak og að erfiðar efnahagsástæður gætu haft slæm áhrif á greiðslubyrði. Sagði hann að það þyrfti „ekki mikið til að háir vextir éti upp ágóðann sem námsmaður fær af niðurfellingu höfuðstóls.“ Spurði hann Lilju Alfreðsdóttur, menntamálaráðherra, hvort að hún væri tilbúin að vinna með allsherjar- og menntamálanefnd „að því að tryggja að vextir námslána rjúki ekki upp úr öllu valdi.“

Vaxtakjörin þau bestu

Í þeim ótal sviðsmyndum sem settar hefðu verið upp sagði Lilja að námsmenn hefðu nánast undantekningarlaust komið betur út í nýja kerfinu en því gamla. Þar skipti niðurfelling á þrjátíu prósentum af höfuðstól námslána mestu um. Auk þess væru „vaxtakjörin þau bestu ríkissjóðs Íslands. Við vitum að þau geta lækkað eins og þau geta hækkað. Ef ég vissi nákvæmlega hver þróun vaxta yrði og hver framtíðin væri, þá væri nú gaman að vera mennta- og menningarmálaráðherra Íslands“ sagði hún í svari sínu.

Í svari Guðmundar Andra kom fram að einhver trygging þyrfti að vera fyrir því að vextir námslána myndu ekki hækka upp úr öllu valdi. „Það er nú einu sinni svo að íslenskt efnahagslíf er eins og veðrið. Við vitum aðeins eitt um það: það kemur alltaf ný lægð.“ Þetta kalli á að einhver trygging sé fyrir því að vextir hækki ekki óhóflega.

Staða námsmanna betri í nýja kerfinu en því gamla

Lilja benti á að í frumvarpinu stæði að nefnd skyldi koma saman þegar verðtryggðir vextir væru orðnir fjögur prósent og óverðtryggðir vextir væru orðnir níu prósent. Það væri því varnagli í frumvarpinu sem tæki á áhyggjum um vaxtahækkanir. Því mætti aftur á móti ekki gleyma að þeir styrkir til nemenda sem felast í nýja kerfinu yrðu til þess að staða nemenda væri betri í nýja námslánakerfinu en því gamla.