Katrín Atladóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, leggur til að launaseðlar á vegum Reykjavíkurborgar verði sundurliðaðir þannig að fram komi hversu stór hluti launanna rennur til sveitarfélagsins annars vegar og ríkisins hins vegar. Einnig verði birt hversu mikið launagreiðandi greiðir í launatengd gjöld.

„Þetta snýst bæði um aukið gagnsæi og að auka þekkingu fólks á sköttum og gjöldum, þannig að þetta sé ekki bara einhver ein summa,“ segir Katrín við Fréttablaðið.

Tillagan verður lögð fyrir mannréttinda- og lýðræðisráð Reykjavíkurborgar í dag. Þetta er ekki eina tillaga Katrínar, hún leggur einnig til að Reykjavíkurborg skrifi jákvæða umsögn um frumvarp Sjálfstæðis- og Miðflokksmanna um að auka sjálfræði sveitarfélaga til að ákveða fjölda fulltrúa.