Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra vill að fagfólk stjórni barnaverndarnefndum hér á landi í stað pólitískt kjörinna fulltrúa í sveitarfélögum. Hann vill jafnframt að hver þessara nefnda sinni fjölmennari svæðum en áður hefur þekkst – og horfir þar á minnst sex þúsund íbúa markið. Með þessi móti telur ráðherra að betur og fyrr verði tekið á málefnum barna sem þurfa á félagsaðstoð að halda.

Þáttaskil í málefnum barna

Þetta er meðal atriða í nýju frumvarpi ráðherra um þjónustu barnaverndarnefnda hér á landi sem hann leggur höfuðáherslu að Alþingi afgreiði á yfirstandandi þingi. Hann segir ákveðin þáttaskil vera í málaflokki barna um þessar mundir, hann hafi verið vanræktur um árabil og vandi barna hér á landi hafi löngum ekki verið viðurkenndur sem skildi í félagsþjónustunni. Nú verði breyting þar á með umræddu frumvarpi og öðrum breytingum sem ráðherra ætli að koma í framkvæmd á næstunni með auknum fjárframlögum til málaflokksins.

Hugarfarsbreyting

Hér sé raunar um hugarfarsbreytingu að ræða, segir Ásmundur Einar. Ráðamenn séu einfaldlega farnir að átta sig á því að fjárfesting í velferð barna sé í raun og sann innviðauppbygging sem skili sér margfalt til baka í samfélaginu en sem nemur þeim fjármunum sem varið er í málaflokkinn. Umrædd fjárfesting sé klárlega sú arðbærasta sem ríkisvaldið geti ráðist í, enda um sjálfan grunninn að ræða sem samfélagið stendur á.

Nánar verður rætt við barnamálaráðherra í fréttaþættinum 21 á Hringbraut í kvöld á degi 112, sem að þessu sinni er helgaður velferð og öryggi barna.